Marcus Rashford, framherji Manchester United er í vanda staddur enda hringdi hann sig inn veikan í vinnuna á föstudag eftir að hafa verið á djamminu.
Rashford var staddur í Belfast í Norður-Írlandi og var á næturklúbbi þar fram undir morgun.
Hann flaug svo til Manchester með einkaþotu en þegar hann átti að mæta á æfingu þá hringdi hann sig inn veikan.
Þetta hefur ekki farið vel í forráðamenn Manchester enda er Rashford einn launahæsti leikmaður félagsins og miklar kröfur gerðar til hans.
Ensk blöð segja að Rashford verði sektaður um tveggja vikna laun vegna málsins en það gera 650 þúsund pund eða 113 milljónir króna.
Líklegt er talið að Erik ten Hag, stjóri United refsi Rashford meira en bara það enda hefur hann reynt að taka á agaleysi innan félagsins síðustu mánuði.