Ívar Ingimarsson mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn KSÍ. Þetta tilkynnir hann í pistli á Vísi í dag.
Ívar, sem átti farsælan atvinnumannaferil á Englandi, segist ætla sér að starfa aftur í fótbltanum og má ekki vera áfram í stjórn KSÍ meðfram því.
„Ég finn að fótboltinn togar í mig og mig langar að láta reyna á að vinna við hann aftur. Samkvæmt reglum KSÍ má stjórnarmaður ekki vera á launaskrá hjá félagi vegna hagsmunaárekstra sem geta komið upp. Að hafa verið í stjórn KSÍ hefur gefið mér kost á að kynnast starfsemi og starfsfólki sambandsins mun betur og á annan hátt en áður. Og að einhverju leyti hefur það breytt sýn minni á sambandið,“ skrifar Ívar.
Ívar gagnrýnir einnig Íslenskan toppfótbolta, ÍTF, í pistli sínum.
„Það er kosið í stjórn KSÍ með lýðræðislegri kosningu á ársþingi á hverju ári. Á þessu er þó ein undantekning. Frá 2019 hefur fulltrúi ÍTF, Íslensks toppfótbolta, liða í tveimur efstu deildum karla og kvenna, fengið sjálfkrafa sæti í stjórn KSÍ. Fyrst formaður og svo síðar varaformaður ef formaður kemst ekki á fund. Þetta var umdeild ákvörðun á sínum tíma en rökin fyrir þessu voru meðal annars þau að reyna að bæta samskiptin KSÍ og ÍTF. Mín reynsla er sú að þetta hafi verið vond ákvörðun.
Fyrir það fyrsta finnst mér prinsipp mál að allir í stjórn KSÍ séu lýðræðislega kosnir á ársþingi KSÍ. Fulltrúi ÍTF er það ekki. Vilji ÍTF sæti í stjórn KSÍ er eðlilegast að fulltrúi þeirra fari sömu leið og aðrir sem bjóða sig fram til kjörs. Í annan stað er KSÍ hagsmunasamtök allra. ÍTF er það ekki og í eðli sínu er fulltrúi ÍTF að vinna fyrir hagsmuni ÍTF innan stjórnar KSÍ. Af þessu leiðir að í ýmsum málum skarast hagsmunir og áherslur KSÍ og ÍTF,“ skrifar Ívar.
Pistilinn í heild má lesa hér.