Það vakti upp furðu margra þegar Michael Owen gekk í raðir Manchester United frá Newcastle árið 2009. Hann vildi þó snúa aftur til Liverpool.
Owen er uppalinn hjá Liverpool og spilaði þar þar til hann fór til Real Madrid 2004. Eftir það fór hann aftur til Englands og gekk í raðir Newcastle en þaðan fór hann á frjálsri sölu til erkifjenda Liverpool í United.
„Eitt og eitt fífl gagnrýnir mig enn fyrir að fara til Manchester United. Það gerist samt ekki oft,“ sagði Owen í viðtali nýlega.
Sjálfur vildi hann nefnilega ólmur fara aftur til Liverpool.
„Ég held að allir sem ég ræði við um þetta í tvær mínútur skilji ákvörðun mína. Ég hefði gengið aftur til Liverpool frá Newcastle. Ég hringdi í Steven Gerrard og Jamie Carragher, sagði þeim að segja Rafa Benitez að ég væri á lausu.“
Allt kom þó fyrir ekki og Owen gekk í raðir United, þar sem hann vann Englandsmeistaratitilinn 2011.