Jóhann Berg Guðmundsson var fyrirliði Íslands í kvöld er liðið mætti Slóvakíu í undankeppni EM.
Ísland tapaði 4-2 á útivelli og var frammistaðan svekkjandi en Ísland komst yfir í þessari viðureign.
Jóhann Berg viðurkennir að frammistaðan hafi ekki verið nógu góð en var þó ekki ánægður með dómgæsluna ytra.
,,Auðvitað ekki nógu gott að tapa 4-2, við komumst 1-0 yfir og svo þjarma þeir á okkur og fá nokkur horn og skora úr því og svo er klaufalegt að við gefum þeim víti,“ sagði Jóhann Berg við Stöð 2 Sport.
,,Þetta var erfitt eftir það og bara ekki nógu gott. Ég sagði við dómarann í hálfleik að þetta væri ansi soft, ég verð að viðurkenna það en ef hann fer í skjáinn og kíkir á þetta tíu sinnum og það er búið að hægja á þessu þá auðvitað sér hann einhverja snertingu. Fyrir mér er þetta ekki víti.“
,,Við föllum kannski of langt til baka sem er eðlilegt á útivelli 1-0 yfir, mér fannst við ekki finna pressuna hvenær við ættum að fara, við vorum einu skrefi eftir á og það er ekki hægt á þessu stigi. Við þurfum að vinna í okkar leik á öllum sviðum.“