Andri Lucas Guðjohnsen hefur farið frábærlega af stað með Lyngby síðan hann gekk í raðir félagsins frá Norrköping. Hann er afar sáttur hjá félaginu.
Framherjinn skoraði mark Lyngby í 1-1 jafntefli gegn Vejle í gær og var valinn maður leiksins á vellinum. Hann hefur nú skorað þrjú mörk í fimm leikjum frá því hann kom til Lyngby.
„Það er alltaf gaman fyrir framherja að skora. Sérstaklega þegar maður er kominn í nýtt lið. Þá vill maður hjálpa því með því að skora mörk,“ sagði Andri við 433.is eftir leik.
Sem fyrr segir er Andri ánægður með að hafa valið Lyngby.
„Það er frábært. Mér finnst Freyr (Alexandersson þjálfari) geggjaður. Hann er með sitt leikplan og sína sýn og við sem lið förum eftir því 100 prósent. Eins og við sjáum í þessum leik þá gerast flottir hlutir.“
Eins og allir vita kom Gylfi Þór Sigurðsson inn á í sínum fyrsta leik í 852 daga í gær. Andri var spurður út í hvernig væri að spila með honum.
„Það var geggjað. Að sjá hann koma inn á og spila fótbolta var hrikalega gaman.“
Viðtalið við Andra í heild er í spilaranum.