Gylfi kom inn á sem varamaður í 1-1 jafntefli gegn Vejle og spilaði um 20 mínútur. Hann var að spila sinn fyrsta leik í 852 daga.
„Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast. Ég hef fundið buzz eftir að hann kom til félagsins. Það var fagnað meira þegar hann kom inn á völlinn heldur en eftir að við skoruðum. Það skipti miklu máli fyrir okkur. Ég er virkilega ánægður með klúbbinn og hvernig hann hefur nálgast þetta,“ sagði Freyr við 433.is eftir leik.
Hann var ánægður með hvernig Gylfi kom inn í leikinn.
„Hann var ferskur. Í fyrsta mómentinu hans býr hann til eitthvað fyrir liðið. Hann vann vel fyrir liðið eftir það en boltinn fór mikið upp í loftið. Hann gerir allt sem hann á að gera, staðsetur sig vel, vinnur návígi og seinni bolta. Hann er svo að bjóða sig í svæði þar sem við þurfum að finna hann. Strákarnir þurfa að læra á hann og hann á þá. Það mun bara taka tíma.
Eina sem ég vildi fá frá Gylfa í dag var að fá hann inn á fótboltavöllinn. Það er risastórt skref.“
Freyr var spurður út í það hvort hann teldi að Gylfi gæti náð hæstu hæðum á ný.
„Tíminn verður að leiða það í ljós. Eins og við þekkjum öll leggur Gylfi rosalega mikla vinnu á sig og er ofboðslega mikill fagmaður. Gæðin eru þarna en hann er náttúrulega búinn að eldast aðeins og svo verður tíminn að leiða það í ljós (hvað verður). Gylfi upp á sitt besta í ensku úrvalsdeildinni var náttúrulega gjörsamlega sturlaður leikmaður svo ef við náum að komast í nálægt við það erum við að tala um stórkostlegan leikmann.“
Þá telur Freyr að það sé tímaspursmál hvenær Gylfi snúi aftur í íslenska landsliðið.
„Ég er í engum vafa um það og hann brennur fyrir það.“