Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, ræddi við 433.is í kvöld eftir leik liðsins við Víking í bikarúrslitum á Laugardalsvelli.
KA gat tryggt sér Evrópusæti með sigri í dag en það voru Víkingarnir sem höfðu betur að lokum, 3-1.
,,Þetta er skrítin tilfinning. Ég er dofinn og svekktur en á sama tíma stoltur að komast alla þessa leið og maður er stoltur af strákunum, þeir gáfu allt í þetta,“ sagði Hallgrímur.
,,Fyrri hálfleikurinn, við spiluðum frábæran varnarleik en lendum á móti vindi sem stjórnaði ótrúlega miklu. Við gátum ekki tekið innköst eða sparkað yfir miðju í markspyrnu. Við vildum ná meiri tökum í seinni hálfleik en svo var logn allt í einu.“
Hallgrímur var svo spurður út í dómgæsluna í leiknum og var mjög augljóslega ekki ánægður með frammistöðu Helga Mikaels Jónassonar og hans teymi.
,,Ég nenni ekki að vera lélegur tapari og og tala um það en ef þið skoðið þetta þá hefðu fyrstu þrjú mörkin ekki átt að standa og ekki heldur okkar.“
,,Við lentum í fáránlegu leikjaálagi, 11 útileikir af 14 þar sem við þurftum að ferðast í heimaleikina. Þetta álag sem við og Breiðablik og við vorum á er grín og þarf að breyta.“