Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins, er orðinn ansi pirraður á þeirri meðferð sem Harry Maguire fær í heimalandinu.
Þrátt fyrir að Maguire hafi átt erfitt uppdráttar með Manchester United undanfarin ár fær hann alltaf traustið hjá enska landsliðinu undir stjórn Southgate.
Hann kom inn á sem varamaður í vináttulandsleik gegn Skotum í gær en gerði sjálfsmark í 3-1 sigri. Stuðningsmenn Skota fögnuðu þegar Maguire kom inn á.
„Hann var að koma út og tala við fjölmiðla. Það sýnir þrautseigjuna og karakerinn sem hann hefur að geyma,“ sagði Southgate eftir leik.
Southgate er kominn með nóg af þeirri meðferð sem Maguire hefur fengið í Englandi. En gjarnan fagna stuðningsmenn andstæðins í ensku úrvalsdeildinni kaldhæðnislega er hann kemur inn á.
„Hvers konar fordæmi setur það? Hann hefur verið ótrúlegur leikmaður fyrir England á einum besta kafla í sögu landsliðsins. Hann er svo mikilvægur. Að við látum hann ganga í gegnum þetta er grín. Það gerir mig brjálaðan.“
Southgate hrósaði hins vegar þeim stuðningsmönnum Englands sem voru staddir á leiknum í Skotlandi í gær.
„Sem betur fer er leikmannahópurinn og fólkið á bak við hann. Enskir stuðningsmenn á vellinum í kvöld voru frábærir. Ég hef ekkert út á stuðningsmenn Skota að setja. Þeir voru bara að hafa gaman.“