Manchester United ætlar sér að gera fjögur stór kaup næsta sumar. Svo segir í frétt Manchester Evening News.
Samkvæmt staðarmiðlinum vill Erik ten Hag bæta við sig miðverði, bakverði, miðjumanni og sóknarmanni næsta sumar.
Jeremie Frimpong og Edmond Tapsoba hjá Bayer Leverkusen eru sagðir á blaði sem hugsanleg kaup í varnarlínuna.
Þá fylgist United náið með hinum afar spennandi Evan Ferguson hjá Brighton. Ljóst er að sá verður ekki ódýr.
Sem fyrr segir vill Ten Hag sterkan miðjumann einnig.
Ljóst er að United þarf að selja vel ef félagið ætlar að bæta svo mikið við sig næsta sumar. Liðið lenti í vandræðum vegna Financial Fair Play reglna í sumar.