Þýska knattspyrnusambandið hefur áhuga á því að ráða Jurgen Klopp til starfa, ákvörðun sem myndi gleðja þýsku þjóðina mikið.
Hansi Flick var rekinn úr starfi í gær eftir 4-1 tap gegn Japan í æfingaleik.
„Að stýra landsliðinu væri mikill heiður, það er enginn spurning um það. En ég stend við mína samninga,“ sagði Klopp síðasta sumar.
Hann er áfram samningsbundinn Liverpool en Daily Mail heldur því fram að mögulega sé þýska sambandið tilbúið að bíða eftir Klopp fram á næsta sumar.
Hann gæti þá hoppað inn og stýrt liðinu á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi, það er hins vegar talið mjög ólíklegt.
Klopp er sagður ætla að virða samning sinn við Liverpool og er því talið líklegast að Julien Nagelsmann taki við liðinu.