Hvorki Jadon Sancho, leikmaður Manchester United, eða Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, munu fara til Sádi-Arabíu áður en félagaskiptaglugganum þar í landi verður lokað í kvöld. The Athletic segir frá þessu.
Salah hefur verið orðaður við Al Ittihad undanfarna daga og Liverpool hafnað 150 milljóna punda tilboði í hann.
Það er ljóst að áhugi Sáda á Salah mun ekki hverfa og ekki ólíklegt að félaigð muni reyna aftur í næstu félagaskiptagluggum.
Sancho er úti í kuldanum hjá Erik ten Hag, stjóra United. Hann var ekki valinn í hóp gegn Arsenal á dögunum og sagði Ten Hag eftir leik að ástæðan væri frammistaða á æfigum.
Sancho var allt annað en sáttur með þetta og svaraði Ten Hag á samfélagsmiðlum.
Í kjölfarið hefur hann verið orðaður við brottför og nýjasta sagan var að Al Ettifaq, með Steven Gerrard í brúnni, væri að reyna að fá hann en enginn fótur er fyrir þeim sögusögnum.