Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ er með mál karlaliðs Breiðabliks á borðinu er snúa að aðdraganda leiks liðsins gegn Víkingi í Bestu deildinni á dögunum. Sambandið staðfestir þetta í svari við fyrirspurn 433.is.
Eins og frægt er mættu Blikar í Fossvoginn aðeins um hálftíma fyrir leik. Samkvæmt heimildum 433.is var gerð athugasemd við það að leiksskýrsla hafi borist seint frá Blikum og að dómari leiksins hafi ekki fengið tækifæri til að fara yfir búninga liðsins fyrir leik.
Þetta var tekið fyrir á fundi aga- og úrskurðarnefndar fyrir viku síðan og voru Blikar í kjölfarið látnir vita af því. Var þeim gefin vika til að svara fyrir sig og verður málið svo tekið fyrir á fundi aga- og úrskurðarnefnd á ný í dag.
Niðurstaða um hvort Blikar hljóti refsingu eður ei gæti legið fyrir síðar í dag.