Mason Greenwood getur farið að reima á sig takkaskóna á nýjan leik en þessi 21 árs framherji mun spila með Getafe í vetur.
Greenwood hefur ekki spilað fótbolta í 18 mánuði eftir að hafa verið sakaður um mjög gróft ofbeldi í nánu sambandi.
Málið var hins vegar fellt niður í byrjun árs en lögregla sagði ný sönnunargögn og framburð vitna hafa orðið til þess.
Manchester United hefur hins vegar ekki viljað leyfa Greenwood að æfa eða spila með félaginu en haldið áfram að borga honum laun.
Greenwood mun í vetur spila á Spáni en United lánaði hann þangað. Ensk blöð segja að hann láti sig dreyma um endurkomu til Manchester United.
Er hann sagður telja að ef vel gengur hjá Getafe, þá gæti United endurskoðað ákvörðun sína og hleypt Greenwood aftur inn.