Chelsea gefst ekki upp á að fá Moises Caicedo þrátt fyrir að leikmaðurinn sé ansi nálægt því að ganga til liðs við Liverpool. Fabrizio Romano segir frá þessu.
Brighton samþykkti seint í gær 111 milljóna punda tilboð Liverpool í leikmanninn. Chelsea hafði verið á eftir honum lengi en aðeins boðið 100 milljónir punda.
Búið er að bóka læknisskoðun fyrir Caicedo hjá Liverpool í dag en samkvæmt nýjustu fréttum gefst Chelsea ekki upp fyrr en allt er frágengið.
Liverpool myndi gera Caicedo að dýrasta leikmanni í sögu Bretlands ef skiptin þangað ganga í gegn.
Það er hins vegar ekki alveg útséð með það þar sem Chelsea neitar að gefast upp.
Þó segir Melissa Reddy á Sky Sports að það þyrfti ansi mikið að gerast til að Caicedo fari ekki til Liverpool. Félagið hafi komið til móts við verðmiða Brighton í gærkvöldi, en það var fresturinn sem félagið gaf til að bjóða í Caicedo.