Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ákvað á fundi sínum í gær að sekta knattspyrnudeild Vestra, um 100.000 kr. vegna opinberra ummæla þjálfara Vestra, Davíðs Smára Lamude vegna ummæla í viðtali í síðasta mánuði.
Davíð viðhafði ummælin eftir jafntefli gegn ÍA þann 16. júlí.
„Það eru náttúrulega fleiri í gula liðinu í dag, svo einfalt er það,“ sagði hann við Fótbolta.net eftir 1-1 jafntefli í Lengjudeild karla.
Að mati framkvæmdastjóra KSÍ var með opinberum ummælunum vegið að heiðarleika og heilindum dómara leiksins, Arnars Þórs Stefánssonar.