Miðjumaðurinn efnilegi Yunus Musah er að ganga í raðir AC Milan frá liði Valencia á Spáni.
Um er að ræða gríðarlega efnilegan leikmann sem kostar Milan um 20 milljónir evra í sumarglugganum.
Það verður gengið frá kaupum leikmannsins á næstu dögum en hann er nú þegar búinn að velja sér númer.
Samkvæmt Goal þá ætlar Musah að klæðast treyju númer 80 hjá Milan sem var síðast í eigu goðsagnarinnar Ronaldinho.
Musah var númer fjögur hjá Valencia en hann er afskaplega hrifinn af Ronaldinho sem lék á San Siro frá 2008 til 2011.
Ronaldinho er einn besti Brasilíumaður í sögu fótboltans og verður ekki auðvelt verkefni að fylla hans skarð.