Marcus Rashford stefnir að því að bæta markamet Wayne Rooney og verða þar með markahæsti leikmaður í sögu Manchester United.
Sóknarmaðurinn skrifaði undir nýjan samning við United í sumar og stefnir að því að halda áfram að raða inn mörkum eftir frábært tímabil í fyrra, en hann skoraði 30 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð.
Í heildina hefur Rashford skorað 123 mörk í 359 leikjum fyrir United en met Rooney stendur í 253 mörkum.
„Vonandi mun ég bæta markamet Rooney,“ segir Rashford í viðtali við Gary Nevile.
„Maður veit aldrei hvað gerist en leikur minn snýst um að skora og reyna að leggja upp. Það er því möguleiki á að það takist.“
Rashford segist hafa rætt þetta við Rooney sem styðji hann heils hugar.
„Hann vill að mér takist það. Hann segir að það væri gott ef ég geri það því ég er uppalinn hjá félaginu. Vonandi tekst mér það.“