Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks telur liðið eiga fína möguleika fyrir einvígið gegn FC Kaupmannahöfn í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu.
Blikar taka á móti dönsku meisturunum í FCK annað kvöld á Kópavogsvelli og fer seinni leikurinn fram á Parken í næstu viku. Íslandsmeistararnir unnu Shamrock Rovers í fyrstu umferð og með því er ljóst að Blikar eru öruggir með umspilsleik um sæti í Sambandsdeildinni hið minnsta, þó svo að tap gegn FCK verði niðurstaðan.
„Ef við erum trúir sjálfum okkur og hugarfarið er álíka því sem það hefur verið í þessu Evrópuævintýri, og í Evrópu undanfarin ár, við erum trúir okkur sjálfum og mætum á okkar forsendum, þá tel ég möguleika okkar nokkuð góða,“ segir Höskuldur við 433.is.
Mikill áhugi er fyrir leiknum og varð uppselt á mettíma.
„Þessi viðburður er stór fyrir íslenskan félagsliðafótbolta. Þetta er stærsta liðið á Skandinvavíu. Það kemur ekki á óvart að þetta veki áhuga.“
Ljóst er að fyrri leikurinn hér heima er afar mikilvægur upp á möguleika Breiðabliks á að fara áfram. Leikmenn gera sér grein fyrir því.
„Hér líður okkur vel, með fólkið að styðja við bakið á okkur,“ segir Höskuldur.
Gengi Blika undanfarið hefur verið gott í deild og Evrópu. Höskuldur segir það henta Blikum vel að hafa nóg að gera og spila leiki með skömmu millibili.
„Mér finnst vera góð fylgni þar á milli. Maður finnur að þetta lyftir hópnum upp á tærnar og sullar út í deildina.
Maður kvartar ekki yfir að vera að spila á þriggja daga fresti. Það er bara draumur, færri æfingar og meiri gleði.“
Viðtalið í heild er í spilaranum