Jude Bellingham spilaði sinn fyrsta leik fyrir Real Madrid í nótt og heillaði marga, þar á meðal stjórann Carlo Ancelotti.
Enski miðjumaðurinn gekk í raðir Real Madrid frá Borussia Dortmund fyrir næstum 90 milljónir punda fyrr í sumar.
Kappinn lék sínar fyrstu mínútur fyrir spænska risann í 3-2 sigri á AC Milan í æfingaleik.
„Bellingham heillaði mig mikið,“ sagði Ancelotti eftir leik.
„Hann spilaði mjög vel og liðið þarf að venjast gæðum hans, sem eru ótrúleg. Hvernig hann kemur inn á teiginn er mjög mikilvægt fyrir liðið.“
Ancelotti gat ekki hætt að hrósa Bellingham.
„Hann er stórkostlegur leikmaður. Hann er góður alhliða miðjumaður og kemur með mikinn hraða og ákefð í leikinn.
Hreyfingar hans án bolta eru frábærar og hann er öðruvísi en nokkur annar leikmaður í okkar röðum.“