Jesse Lingard er þessa stundina að leita sér að nýju félagi eftir skelfilega dvöl hjá Nottingham Forest í vetur.
Lingard var lang launahæsti leikmaður Forest í úrvalsdeildinni en stóðst svo sannarlega ekki væntingar.
Samningur Lingard var aðeins til eins árs og hefur hann nú yfirgefið Forest og er frjáls sinna ferða.
Nú er Lingard að æfa með fyrrum samherja sínum, Ravel Morrison, sem spilar í Bandaríkjunum.
Morrison var eitt helsta efni Manchester United á sínum tíma og ólst upp í akademíu félagsins líkt og Lingard.
Morrison er 30 ára gamall, ári yngri en Lingard, og hefur spilað 14 leiki með DC United í MLS-deildinni síðan í fyrra.