Það vakti nokkra athygli í morgun þegar Benjamin Mendy samdi við Lorient í frönsku úrvalsdeildinni til tveggja ára. Skrifar hann undir samninginn örfáum dögum eftir að hafa verið hreinsaður af þungum ásökunum í Englandi.
Mendy mun spila á Englandi í byrjun ágúst en Lorient mætir þá Bournemouth þar í landi.
Hann var í heildina sýknaður af níu ákærum um kynferðisbrot. Var hann sýknaður af sjö ákærum í janúar en kviðdómur komst ekki að niðurstöðu um tvær þeirra, eina nauðgun og tilraun til nauðgunar. Það var tekið fyrir á ný og var Mendy sýknaður fyrir helgi.
Málið hefur vakið mikla athygli en um tíma var Mendy settur í fangelsi og síðar var hann laus gegn tryggingu. Ákæra var gefin út í öllum málunum og fóru þau fyrir dómara, kviðdómur sýknaði hann í öllum málunum.
Mendy á væntanlega væna summu inni hjá Manchester City sem hætti að borga honum laun í ágúst árið 2021 og bannaði honum að mæta til æfinga.