Grindavík hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þeirra láta sem voru eftir leik liðsins gegn Gróttu í Lengjudeildinni í gær.
Slagsmál brutust út eftir leik en Grótta sakar Guðjón Pétur Lýðsson, leikmann Grindavíkur um að hafa tekið leikmann Gróttu hálstaki.
Guðjón játar því að hafa rifið harkalega í leikmann Gróttu en segir ekkert hálstak hafa átt sér stað.
Í yfirlýsingu Gróttu í gær var starfsmaður Grindavíkur sakaður um að hafa tekið þátt í ofbeldinu en það er fjarri lagi samkvæmt Grindavík.
„Stjórn Knattspyrnudeildar Gróttu gaf frá sér yfirlýsingu um málið í gær. Þar segir að aðili úr starfsliði Grindavíkur hafi ráðist á leikmann Gróttu. Knattspyrnudeild Grindavíkur getur ekki tekið undir þá atvikalýsingu. Liðsstjóri Grindavíkur stígur inn á milli aðila og er að reyna að stía leikmönnum í sundur. Uppsker hann í kjölfarið spark í fótlegg frá leikmanni Gróttu þannig að hann hlýtur skurð á fótlegg,“ segir í yfirlýsingu.
Yfirlýsing
Í gær fór fram leikur Gróttu og Grindavíkur í Lengjudeild karla á Seltjarnarnesi. Grótta vann leikinn 2-0 og óskum við þeim til hamingju með sigurinn og góða spilamennsku.
Eftir leik kemur upp atvik við búningsherbergi þar sem til áfloga kemur á milli leikmanna. Leikmaður Grindavíkur, Guðjón Pétur Lýðsson, hefur sjálfur gefið út yfirlýsingu um málið og beðist afsökunar á sínum þætti málsins. Það skal áréttað hér að Knattspyrnudeild Grindavíkur fordæmir allt ofbeldi, innan vallar sem utan.
Stjórn Knattspyrnudeildar Gróttu gaf frá sér yfirlýsingu um málið í gær. Þar segir að aðili úr starfsliði Grindavíkur hafi ráðist á leikmann Gróttu. Knattspyrnudeild Grindavíkur getur ekki tekið undir þá atvikalýsingu. Liðsstjóri Grindavíkur stígur inn á milli aðila og er að reyna að stía leikmönnum í sundur. Uppsker hann í kjölfarið spark í fótlegg frá leikmanni Gróttu þannig að hann hlýtur skurð á fótlegg.
Gott samtal hefur átt sér stað milli Gróttu og Grindavíkur í morgun og munu félögin leitast við að ljúka málinu í góðri samvinnu.
Stjórn Knattspyrnudeildar Grindavíkur