HK og KR gerðu 1-1 jafntefli í Bestu deild karla í gær þar sem HK jafnaði leikinn þegar lítið var eftir. Rætt var um leikinn í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin.
Nokkuð var liðið frá síðasta leik KR en félagið fór fram á frestun á bikarleik við Víking vegna þess að Jóhannes Kristinn Bjarnason var í verkefni með U19 ára landsliðinu.
Jóhannes var varamaður í leik U19 ára landsliðsins á mánudag og var aftur varamaður hjá KR í kvöld.
„Hann byrjaði ekki einn leik, þetta er svo mikið boomerang í andlitið á Rúnari. Þetta setur bikarkeppnina í uppnám, það var galið í ljósi að Jóhannes spilaði hálftíma á mánudag,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson um þá ákvörðun að fresta leik KR í undanúrslitum bikarsins.
„Maður hefði haldið að þetta væri mikilvægi Messi eða Ronaldo, er svo ekki í liðinu í kvöld,“ sagði Mikael Nikulásson.
Kristján Óli var svo ekki hrifin af ummælum Rúnars um Kórinn þar sem leikið var í gær. „Ég var að hlusta á Rúnar eftir leik, það var farið í afsökunarbókina. Kenna vellinum um hversu illa KR spilaði í kvöld, djöfull er þetta léleg afsökun. Það er bleytt gervigrasið í Kórnum. Þetta er innantómt þvaður í Rúnari Kristinssyni, jafn mikið þvaður og þessi aumingjaskapur að fresta bikarleiknum. Drullastu í gang legendið þitt.“
Mikael var sammála því. „Mér fannst það léleg afsökun, menn eru að biðja um þetta gervigras,“ sagði Mikael og Ríkharð Óskar Guðnason sem var á vellinum sagði að grasið hefði verið rennandi blautt.