Amanda Andradóttir gekk í dag í raðir Vals frá Kristianstad. Það kom ekkert annað lið á Íslandi til greina.
Þessi þrælefnilegi leikmaður hefur spilað erlendis síðan 2019 en er nú kominn heim til Íslands. Hún er að snúa aftur í Val, þar sem hún spilaði í yngri flokkum einnig.
„Ég held að þetta sé það besta fyrir mig á þessum tímapunkti. Það eru spennandi leikir framundan hjá Val, bæði í deildinni og svo forkeppni Meistaradeildarinnar. Svo er ég búin að vera að spila frekar lítið úti,“ segir Amanda í samtali við 433.is.
Hún segir ekkert annað lið á Íslandi hafa komið til greina. „Ef ég ætlaði heim ætlaði ég alltaf í Val.“
Amanda er 19 ára gömul og á að baki 13 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún er hluti af íslenska hópnum sem mætir Finnlandi annað kvöld og Austurríki á þriðjudag í vináttuleikjum.
„Þetta verður hörkuleikur, fínn æfingaleikur fyrir leikina í haust,“ segir Amanda um leikinn gegn Finnum.
Viðtalið í heild er í spilaranum.