Xavi, stjóri Barcelona, er ákveðinn í því að liðið sé ekki búið að styrkja sig nóg fyrir næstu leiktíð.
Barcelona hefur fengið tvo sterka leikmenn í sínar raðir í glugganum eða varnarmanninn Inigo Martinez frá Athletic Bilbao og llkay Gundogan frá Manchester City.
Leikmenn á borð við Sergio Busquets og Jordi Alba eru þó að kveðja og er Xavi ekki nógu sáttur með hópinn.
Hann heimtar að fá inn fleiri leikmenn en eins og flestir vita er fjárhagsstaða Barcelona ekki sú besta í dag.
,,Okkur vantar nokkur púsl, við getum ekki blekkt stuðningsmennina. Við getum styrkt okkur enn frekar,“ sagði Xavi.
,,Við þurfum að styrkja okkur og forsetinn veit það sjálfur. Við megum ekki blekkja neinn.“
,,Markaðurinn verður langur og er opinn þar til 31. ágúst og við þurfum að vera með eins keppnishæft lið og möguleiki er á.“