Samkvæmt hlaðvarpsþættinum Þungavigtin neitaði KSÍ að færa leik Vals og Grindavíkur sem fram fer í bikarnum í dag. Um er að ræða 16 liða úrslit.
Ástæðan fyrir því að beðið var um að færa leikinn er sú að í kvöld spila Valur og Tindastóll í úrslitum körfuboltans. Það er því mikið að gerast á Hlíðarenda í dag.
Valur og Grindavík vildu bæði spila leikinn í gær. „Maður heyrði sögur af því að það voru bæði lið sem vildu færa leikinn Þau fengu það ekki í gegn,“ sagði Rikharð Óskar Guðnason í þættinum.
Kristján Óli Sigurðsson skilur ekki af hverju málið er svona. „Þau vildu spila á miðvikudegi, liðin eru að spila aftur í deildinni á sunnudag. AF hverju þá að troða þessu á fimmtudag,“ sagði Kristján.
Ríkharð Óskar segir að þvert nei hafi komið úr Laugardalnum. „KSÍ sagði þvert nei,“ sagði Ríkharð.
Kristján Óli kallar málið skitu. „Úrslitaleikur í körfunni á Hlíðarenda sem verður undirlagður undir það frá hádegi, Stólarnir mæta þá með kúrekahattinn um það leyti. Þetta er bara skita númer 7922 hjá KSÍ,“ sagði Kristján.