Arsenal þokast nær samkomulagi við nágranna sína í Chelsea um kaup á ítalska miðjumanninum Jorginho. Það er The Athletic sem greinir frá.
Mál manna hjá Arsenal er að félaginu muni ekki takast að landa Moises Caicedo, miðjumanni Brighton og því hefur félagið snúið sér að fullu að Jorginho.
Arsenal eru þunnskipaðir á miðsvæðinu eftir meiðsli leikmanna og er litið á hinn 31 árs gamla Jorginho sem góða viðbót við leikmannahópinn en samningur hans við Chelsea rennur út í sumar.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal er sagður hafa miklar mætur á Jorginho. David Ornstein hjá The Athletic segir hann helsta drifkraftinn að baki tilraun Arsenal að fá hann til liðs við sig.
Hins vegar munu möguleg félagsskipti Jorginho velta á því hvernig Chelsea tekst upp með að fá Enzo Fernandez, miðjumann Benfica til liðs við sig.