Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var Hjörvar Hafliðason, dr. Football.
Þeir fóru yfir fréttir vikunnar og ræddu um komu Vésteins Hafsteinssonar sem sneri aftur til Íslands og á að rífa upp afreksíþróttirnar. Hjörvar hefur ákveðna skoðun á því máli.
„Ég held að besta leiðin til að búa til afreksfólk er að fara í skólana. Vera í menntaskólum þannig þeir sem eru góðir í íþróttum séu saman og í kringum hvort annað. Maður hefur heyrt af slíkum prógrömum í Noregi og Danmörku.
Ég meina 16 ára Bjarni fer í MR. Þar eru bjórkvöld og böll og hann þarf að mæta á þetta allt saman. En ef þú ert í kringum fólk sem ætlar sér að verða best í heimi held ég að það geti smitað út frá sér. Ég er mjög hlynntur því að fara að hugsa þetta upp á nýtt,“ sagði hann.
Hann benti á að trúlega værum við best í heimi í kringum 12 ára aldurinn en síðan gerðist eitthvað. „Þessi þrjú ár, þarna missum við af lestinni. Ef við færum á Essó mótið og horfðum á 12 ára krakka þá myndi ég telja að þau væru bestu 12 ára krakkar í heimi. Þau eru geggjuð en svo gerist eitthvað í kringum 15-16 og 17 ára aldurinn. Þá einhvern veginn fer þetta niður.“
Afreksíþróttabrautir eru til í framhaldsskólum meðal annars í Borgarholtsskóla og Menntaskólanum í Kópavogi. „Ég vil bara sjá þessa krakka saman á einum stað,“ sagði Hjörvar. „Þá ertu ekki að fara í MR eða Versló eða annað og hitta vitleysinga sem plata viðkomandi á bjórkvöld. Þá eru þau í kringum annað afreksíþróttafólk hvort sem það er skíðafólk eða fimleikafólk eða handboltafólk. Það tjakkar hvort annað upp.
Þetta er pæling.“