Cristiano Ronaldo er sagður hafa sent Piers Morgan skilaboð úr búningsklefa Portúgal eftir sigurinn á Úrúgvæ á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær. Þar á hann að hafa haldið því fram að hann hafi skorað fyrra mark Portúgala í leiknum.
Leiknum lauk 2-0. Bruno Fernandes gerði bæði mörkin fyrir Portúgal. Það héldu þó flestir að Ronaldo hafi skorað fyrra markið til að byrja með.
Fernandes sendi boltann fyrir markið og rataði hann alla leið í netið.
Ronaldo heldur því fram að hann hafi skallað boltann og sendi hann það á vin sinn Morgan eftir leik. Þetta segir fréttamaður Fox.
Kappinn fór í umdeilt viðtal við Morgan á dögunum, þar sem hann hraunaði yfir allt og alla hjá Manchester United. Viðtalið varð til þess að hann yfirgaf félagið skömmu fyrir HM.
Þeir eru miklir mátar og var Ronaldo ekki lengi að rífa upp símann og senda skilaboð á Morgan eftir leik.