England tryggði sér toppsætið í B-riðli Heimsmeistaramótsins í Katar með sigri á Wales í lokaumferðinni í kvöld.
Fyrri hálfleikur var markalaus þrátt fyrir að England hafi stjórnað leiknum. Leikmenn Wales vörðust vel, enda mikið undir.
Snemma í seinni hálfleik var ísinn hins vegar brotinn. Marcus Rashford skoraði þá glæsimark úr aukaspyrnu.
Það var vart liðin mínúta áður en Phil Foden skoraði eftir flottan undirbúning Harry Kane.
Rashford setti síðasta naglann í kistu Wales á 68. mínútu. Þá skaut hann að marki og boltinn fór á milli Danny Ward sem stóð á milli stanganna.
Lokatölur 3-0 fyrir England. Liðið fer áfram í 16-liða úrslit sem efsta liðið í B-riðli.
Wales er hins vegar úr leik eftir að hafa aðeins fengið eitt stig í riðlakeppninni.