„Engir kossar eða kynlíf fyrir HM strákana,“ segir í umfjöllun Ekstra Bladet um þá staðreynd að knattspyrnusamband Dana hefur bannað unnustum leikmanna að mæta á Heimsmeistaramótið í Katar.
Ástæðan er sú að danska sambandið vill ekki að verið sé að eyða peningum í að örva hagkerfið í Katar.
Danir taka ansi harða aðstöðu gegn Katar vegna þeirra mannrétindabrota sem hafa átt sér stað í aðdraganda mótsins.
Unnustur leikmanna þurfa því að sitja heima en hingað til hafa þær alltaf verið velkomnar á stórmót sem danska liðið tekur þátt í.
Hummel sem framleiðir treyjur danska liðsins kynnti á dögunum nýja treyju liðsins. Þar er merki Hummel varla sjáanlegt en fyrirtækið vill ekki auglýsa vörur sínar í Katar samkvæmt tilkynningu.
Christian Eriksen, Pierre-Emile Hojberg og fleiri danskir leikmenn munu því ekki sjá unnustur sínar eða börn í nokkrar vikur en mótið hefst í nóvember.