Burnley rak Sean Dyche úr starfi knattspyrnustjóra á dögunum en starfsmenn félagsins eru ekki alveg búnir að átta sig á því.
Tottenham tók á móti Burnley í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í gær í mikilvægum leik fyrir bæði lið. Tottenham er á höttunum eftir Meistaradeildarsæti meðan Burnley er í bullandi fallbaráttu.
Harry Kane kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu á lokasekúndum fyrri hálfleiks eftir að boltinn hafði farið í höndina á Ashley Barnes.
Burnley átti nokkrar góðar sóknir í síðari hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið og lokatölur 1-0 sigur Spurs.
Á skýrslunni fyrir leik tilkynnti Burnley að Sean Dyche væri stjóri liðsins en hann var rekinn á dögunum og nú er Mike Jackson stjóri liðsins.