Fjórir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Staðan er farin að líta vel út fyrir Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Eftir stórsigur á Wolves á útivelli í kvöld er liðið komið þremur stigum á undan Liverpool á ný auk þess að markatala þeirra er betri með sjö mörkum.
Kevin De Bruyne var algjörlega stórkostlegur í leiknum. Hann kom City yfir á 7. mínútu. Leander Dendoncker jafnaði fyrir heimamenn stuttu síðar.
Eftir rúman stundarfjórðung var De Bruyne hins vegar aftur á ferðinni með mark og á 24. mínútu skoraði Belginn þriðja mark City og fullkomnaði um leið þrennuna. Staðan í hálfleik var 1-3.
De Bruyne skoraði fjórða mark sitt og City á 60. mínútu. Magnaður leikur hjá honum. Raheem Sterling átti eftir að bæta við einu marki fyrir City sem vann 1-5.
Chelsea heimsótti þá Leeds og vann öruggan sigur.
Mason Mount kom gestunum yfir á fjórðu mínútu. Tæpum 20 mínútum síðar fékk Daniel James rautt spjald fyrir afar ljóta tæklingu á Matteo Kovacic. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Leeds missir mann af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik.
Christian Pulisic tvöfaldaði forystu Chelsea á 55. mínútu. Romelu Lukaku innsiglaði svo 0-3 sigur liðsins á 83. mínútu.
Chelsea er í þriðja sæti deildarinnar með 70 stig. Leeds er í átjánda sæti með 34 stig, jafnmörg stig og Burnley sem á þó leik til góða.
Leicester vann þá öruggan sigur á Norwich á heimavelli.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Jamie Vardy kom heimamönnum yfir snemma í þeim seinni. Hann bætti við öðru marki eftir rúman klukkutíma leik.
James Maddison gulltryggði svo sigurinn með þriðja markinu á 70. mínútu. Lokatölur 3-0.
Leicester er í tíunda sæti með 45 stig. Norwich er á botninum og löngu fallið.
Loks gerðu Watford og Everton markalaust jafntefli.
Everton er í sextánda sæti, tveimur stigum fyrir ofan Leeds sem er í síðasta fallsætinu. Þá á liðið einnig leik til góða. Watford er þegar fallið.