Stuðningsmaður Newcastle United hefur verið handtekinn eftir að hann meig á styttu af Sunderland goðsögninni Bob Stokoe fyrir utan heimavöll félagsins á dögunum.
Styttan er minnisvarði um sigurdans Bobs eftir 1-0 sigur Sunderland á Leeds United í úrslitaleik ensku bikarkeppnnnar á Wembley árið 1973.
Myndband af athæfi mannsins hefur verið í deilingu á samfélagsmiðlum og hefur lögreglunni ytra tekist að hafa uppi á manninum.
Maðurinn er 21 árs gamall og var handtekinn fyrir óspektir á almannafæri og er enn í haldi lögreglu.
Mikill sögulegur rígur er á milli Newcastle United og Sunderland, stutt er á milli borganna í Norður-Englandi en rígurinn hefur ekki verið mikill innan vallar undanfarin ár þar sem að Sunderland hefur fallið niður um deildir.