Cristiano Ronaldo virtist senda þau skilaboð út í gær að hann ætlaði sér að vera áfram hjá Manchester United á næstu leiktíð. Um var að ræða síðasta heimaleik tímabilsins á Old Trafford.
Manchester United tók á móti Brentford í 35. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Leiknum lauk með 3-0 sigri heimamanna. Bruno Fernandes kom heimamönnum yfir strax á 9. mínútu eftir sendingu frá Anthony Elanga. Cristiano Ronaldo taldi sig hafa tvöfaldað forystuna undir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir skoðun í VAR. Heimamenn leiddu með einu marki þegar flautað var til hálfleiks.
Manchester United fékk vítaspyrnu á 61. mínútu og tók Ronaldo spyrnuna og skoraði af öryggi. Raphael Varane rak endahnútinn á góðan sigur heimamanna en hann skoraði þriðja markið og sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn eftir sendingu frá Alex Telles.
Manchester United er í 6. sæti deildarinnar með 58 stig, fimm stigum frá Arsenal í fjórða sætinu sem á tvo leiki til góða. Brentford er í fjórtánda sæti með 40 stig.
Að leik loknum gengu leikmenn United hring og þökkuðu stuðningsmenn fyrir sig. Þegar Ronaldo labbaði um ákvað hann að senda skilaboð í gegnum myndavélina. „Ég er ekki búinn,“ sagði Ronaldo og brosti eftir 18 deildarmark sitt á tímabilinu.
Don't tell me you are going to be here next season 🤦♂️🙆♂️
Ronaldo: I'm not finished pic.twitter.com/f5aVYI0sXG
— CR7🐐 (@CR7Simza) May 3, 2022