Villarreal tók á móti Liverpool í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liverpool sigraði leikinn 2-3 og er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti en Boulaye Dia kom liðinu yfir strax á 3. mínútu eftir slakan varnarleik Liverpool og galopnaði einvígið. Heimamenn stjórnuðu fyrri hálfleiknum og virtust Liverpool menn heillum horfnir. Francis Coquelin tvöfaldaði forystu Villarreal á 41. mínútu verðskuldað með skalla og var allt jafnt í einvíginu er flautað var til hálfleiks.
Klopp gerði eina breytingu í hálfleik þar sem Luis Diaz kom inn fyrir Diogo Jota. Allt annað var að sjá til Liverpool í seinni hálfleik og virtist Klopp hafa lesið yfir sínum mönnum í hálfleik. Fabinho braut ísinn fyrir Liverpool á 62. mínútu með skoti í gegnum klofið á Rulli, markmanni Villarreal. Luis Diaz skoraði annað mark Liverpool stuttu síðar og aftur hefði Rulli átt að gera betur í markinu. Sadio Mané kláraði frábæra endurkomu Liverpool í seinni hálfleik á 74. mínútu eftir skógarhlaup Rulli.
Heimamenn virtust þreyttir í seinni og hélt Liverpool stjórn á leiknum þar til lokaflautið gall. Étienne Capoue fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald undir lok leiks fyrir pirringsbrot og voru heimamenn því einum færri síðustu mínúturnar.
Liverpool er því komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og annað kvöld kemur í ljós hvort mótherjinn verður Manchester City eða Real Madrid.
Villarreal 2 – 3 Liverpool (2-5)
1-0 Boulaye Dia (´3)
2-0 Francis Coquelin (´41)
2-1 Fabinho (´62)
2-2 Luis Diaz (´67)
2-3 Sadio Mané (´74)
👋🇫🇷 pic.twitter.com/eaqKMWv7Zy
— Liverpool FC (@LFC) May 3, 2022