Rauði baróninn, saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar kom út á síðasta ári en þar fer Garðar Örn Hinriksson yfir sögu sína. Garðar var um langt skeið einn fremsti dómari landsins en hann var mikið í sviðsljósinu. Frásögn Garðars hefur vakið mikla athygli en bókin kom nýlega inn á Storytel og annast dómarinn sjálfur upplesturinn.
Garðar segir frá öllu sem gerðist innan sem utan vallar og þar á meðal er gleðskapur frá árinu 1998 með íslensku knattspyrnufólki.
„Sumarið 1998 endaði óvenjulega. Kvöldið eftir að síðasta umferðin var leikin í efstu deild karla beið ég á rauðu ljósi á Miklubrautinni þegar flautað var á mig. Á akreininni við hliðina var smekkfullur bíll af leikmönnum ónefnds liðs í efstu deild. Ég er beðinn um að skrúfa niður rúðuna, sem ég og gerði, og var mér þá boðið í partí. Við félagi minn þurftum ekki að hugsa okkur um tvisvar og héldum þegar af stað í partíið sem var haldið í stóru einbýlishúsi í ónefndu hverfi í Reykjavík,“ skrifar Garðar í sögu sinni.
Gleðskapurinn fór rólega af stað en fljótlega fór hiti að færast í leikinn samkvæmt Garðari. Kókaín var út um allt.
„Allt var rólegt til að byrja með. Einn og einn partímeðlimur skreið inn og enn voru allir með fullri meðvitund. En allt í einu var húsið orðið smekkfullt af fólki, það heyrðist ekki lengur mannsins mál og erfitt að greina hvað næsti maður sagði fyrir hávaða. Skyndilega fóru hvítar rákir að myndast á borðum en hurfu jafn hratt og þær komu upp í nef viðstaddra;“ segir Garðar og heldur svo áfram.
„Hálfnaktar stelpur hlupu um húsið og kynlíf í hverju einasta herbergi. Stundum var það stelpa og strákur, stundum stelpa og stelpa og einu sinni strákur og strákur,“ segir Garðar.
Garðar gekk inn á strákana sem voru í sleik en þeir tóku ekki eftir honum til að byrja með. „Þeir tóku ekki eftir mér strax þegar ég gekk óvart inn á þá í miðju kossaflensi og káfi inni á salerni, tveir strákar úr efstu deildinni. Ég stóð orðlaus í nokkrar sekúndur og horfði á þá. Aldrei hefði mig grunað þetta. Þeim dauðbrá auðvitað og urðu skömmustulegir þegar þeir urðu mín varir, höfðu greinilega gleymt að læsa hurðinni. Við horfðumst í augu um stund þar til ég sagði: „What happens in Vegas stays in Vegas,“ og lét mig svo hverfa.“
Garðar hefur alltaf lofað því að segja ekki frá hverjir voru þarna. „Ég hef staðið við orð mín og mun ekki ljóstra því upp um hverja var að ræða. Ég veit að þeir voru báðir í samböndum með konum á þessum tíma og man ekki til þess að þeir hafi nokkurn tíma komið út úr skápnum. Það er örugglega ekki auðvelt að vera samkynhneigður knattspyrnumaður og ekki ætlaði ég mér að gera þeim lífið erfiðara.“
Garðari var oft þetta kvöldið boðið að taka þátt í ástarleikjum. „Það góða sem kom út úr þessu var þó það að eftir þetta létu þeir mig alveg í friði á vellinum. Ekki var ég þó látinn í friði í þessu partíi frekar en fleiri og fékk mörg góð boð um að deila rúmi með stelpum sem höfðu alla burði til að standa sig vel og sigra Ungfrú Ísland fegurðarsamkeppnina. Ég hafnaði hinsvegar öllum boðum enda í sambandi á þessum tíma með konu sem bar barn mitt undir belti. Hver veit hvað hefði gerst ef ég hefði verið maður einsamall.“