fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
433Sport

Mál Arons og Eggerts – Fólk sem tengdist landsliðinu fékk vitneskju um „að eitthvað hefði gerst í ferðinni sem átti ekki að gerast“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. desember 2021 19:00

Aron Einar Gunnarsson. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ um málefni KSÍ er fjallað um mál landsliðsmannanna Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar en þeir hafa verið kærðir til lögreglu fyrir nauðgun sem á að hafa átt sér stað á hótelherbergi í Kaupmannahöfn árið 2010 eftir landsleik Dana og Íslendinga.

Nefndin rifjar upp færslu sem kona birti á Instagram í vor undir myllumerkinu #metoo og er færslan endurbirt í skýrslunni:

„Ég ligg andvaka, get ekki hætt að hugsa um alla sem hafa þurft að upplifa það sama og ég. Upplifa skömm, reiði, sorg, uppgjöf, vantrú á sínar eigin tilfinningar og upplifanir. Árið 2010 var mér nauðgað af 2 íslenskum mönnum í útlöndum. Ég var búin að drekka áfengi en grunar að einhver hafi sett eitthvað í glasið mitt, gæti hafa verið hver sem er. Til að gera langa og ömurlega sögu stutta að þá ældi ég yfir annan þeirra í leigubílnum á leið á hótelið þeirra, svo aftur í rúmið á hótelinu en þeir létu það ekki stoppa sig og skiptust á að nauðga mér þar sem ég lá í rúminu ber að neðan með ælu í hárinu, andlitinu og fötunum.

Það eru bráðum 11 ár síðan en það líður ekki sá dagur að þetta kemur ekki upp í hausinn á mér. Þetta rændi mig svo mörgu. Sjálfstraustinu, gleðinni, tækifærum og upplifunum. Ég ætlaði að kæra, fékk lögfræðing, fór í skýrslutöku en hvar sem ég kom var mér sagt að þetta væri erfitt mál, annað land og þeir tveir gegn mér. Ítrekað var ég spurð hvort ég vildi leggja þetta á mig. Eftir margra mánaða bið ákvað ég að leggja málið niður, var ekki nógu sterk, gat ekki lagt meira á mig andlega.

Þessir menn voru þekktir, annar þeirra þjóðþekktur í dag. Mér var ítrekað bent á að ef ég myndi kæra myndi það hafa áhrif á þeirra feril, þetta færi í blöðin og það myndu allir vita af þessu. Spurningarnar sem ég fékk sem sitja fastast þegar ég sagði frá voru: ,,Ertu viss?“„Þú vildir þetta en sást svo eftir því.“ Það sem ég hugsaði þá og hugsa ennþá stundum í dag er að það trúir mér enginn.

Það er ógeðslega fokking erfitt að þurfa að segja #meetoo og ég óska þess engum! Ég má segja frá, ég má bara ekki nafngreina. Mig langar ekki að burðast með þetta ein í hjartanu, mig langar ekki að hugsa í hvert skipti sem ég fer meðal fólks „Ætli þau viti þetta, ætli þau trúi mér?“ því það er ógeðslega íþyngjandi og heftandi félagslega. Ég er alltaf á varðbergi.

Þennan dag var eitthvað tekið frá mér sem ég mun aldrei fá aftur en ég ætla að halda áfram að vinna í mér og skila skömminni loksins! FOKKIÐ YKKUR!!“

Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi fengið þær upplýsingar í viðtölum sínum að aðilar sem tengdust landsliðinu á þessum tíma hafi fengið vitneskju að eitthvað sem átti ekki að gerast hafi gerst í þessari ferð. Þeir hinir sömu telja sig þó ekki geta fullyrt hvað hefði gerst. Geir Þorsteinsson var formaður KSÍ á þessum tíma en hann segist ekki hafa heyrt af málinu fyrr en í ágúst á þessu ári. Er þetta orðað svo í skýrslunni:

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem úttektarnefndin fékk í viðtölum munu einstaklingar sem tengdust A-landsliði karla á þessum tíma í kjölfarið hafa fengið vitneskju um „að eitthvað hefði gerst í ferðinni sem átti ekki að gerast“, eins og einn þeirra orðaði það, og að það hefði lotið að því að tveir landsliðsmenn hefðu verið með stelpu uppi á herbergi hjá sér. Þeir einstaklingar sem nefndin ræddi við báru þó ekki að þeir hefðu heyrt frásagnir um að kynferðisbrot hefði átt sér stað en lögð hafi verið áhersla á að leyna atvikinu með vísan til þess að annar leikmaðurinn hefði átt kærustu sem ekki hefði mátt komast að því hvað hefði gerst.

Allir þessir einstaklingar lögðu þó áherslu á að þeir hefðu ekki verið í aðstöðu til að fullyrða neitt um hvað hafi gerst í raun. Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, greindi nefndinni frá því í viðtali að hann hafi ekki heyrt af þessu máli fyrr en í ágúst 2021, löngu eftir að hann hætti störfum hjá KSÍ.“

Tengdamóðir þolandans starfaði hjá KSÍ

Í skýrslunni er greint frá því að daginn fyrir leik landsliðsins gegn Færeyjum þann 3. júní hafi Guðna formanni, Klöru Bjartmaz framkvæmdastjóra KSÍ og Arnari Þór Viðarssyni landsliðsþjálfara borist þetta nafnlausa bréf:

„Varðandi val ykkar á landsliðshópnum fyrir næsta verkefni langaði mig að athuga hvort þið hjá KSÍ hefðuð hugmynd um hverja þið væruð í raun og veru að velja í lið Íslands. Ég efast um að gjörðir og hegðun ákveðinna aðila í hópnum hafi farið framhjá öllum þeim sem vinna fyrir ykkar hönd þar sem þessir ákveðnu aðilar eru sagðir vera kynferðisafbrota- og ofbeldismenn.

Ég velti því fyrir mér hver afstaða ykkar í málum sem þessum er? Viljið þið virkilega að fyrirmyndir allra barna sem hafa áhuga á fótbolta séu kynferðisafbrota- og ofbeldismenn? Þar á meðal barnanna ykkar? Viljið þið vera meðsek í að gefa þessum einstaklingum góða stöðu í samfélaginu til þess að auðvelda þeim að komast upp með að misnota aðra? Þið hafið öll völdin til að velja í liðið og því miður sér maður þessa aðila valda fyrir hönd Íslands aftur og aftur.

Kveðja,
Aðili sem krefst góðra fyrirmynda fyrir börnin okkar.“

Eftir að bréfið hafði farið um hendur þessa fólks spurði Klara starfskonu á skrifstofu KSÍ hvort hún kannaðist við málið. Svaraði konan því til að málið snerti tengdadóttur hennar. Um þetta segir í texta skýrslunnar:

Í viðtölum fyrir nefndinni kom fram að Y, starfsmaður KSÍ, hafi tekið á móti bréfinu þennan dag og opnað það. Y hefði síðan skannað bréfið og sent það áfram til Guðna, Klöru og Arnars Þórs í tölvupósti kl. 11:22. Eftir að Klara opnaði póstinn og las bréfið spurði hún Y hvort hún vissi eitthvað. Sagði Y henni þá að tengdadóttir hennar hefði greint sér frá því tveimur árum áður að tveir leikmenn A-landsliðsins, sem eru auðkenndir sem C og D í þessari skýrslu, hafi í sameiningu nauðgað sér í kjölfar landsleiks Danmerkur og Íslands á þjóðarleikvangi Dana í knattspyrnu árið 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fór sá leikur fram 7. september 2010. Y hafi sagt Klöru að tengdadóttir hennar hefði þá ekki viljað aðhafast frekar vegna málsins og ekki heldur þegar hún birti færslu um reynslu sína á Instagram 9. maí 2021. Málið hefði hins vegar farið í kæruferli á sínum tíma en tengdadótturina hefði á þeim tíma skort bakland til að fylgja málinu eftir. Y mun þó hvorki hafa haft aðkomu að ritun bréfsins né vitneskju um önnur mál en það sem vísað var til í frásögn tengdadóttur hennar. Viðtöl og aðrar athuganir úttektarnefndarinnar hafa ekki varpað ljósi á hver hafi ritað og sent bréfið.

Klara sendi Guðna og Arnari Þór í kjölfarið tölvupóst þar sem hún greindi frá því í framhaldi af tölvupósti starfsmannsins að birst hefði opinberlega frásögn í tengslum við #metoo sem tengdist landsliðsverkefni sem væri ekki falleg og að frásögnin væri tengd við nafngreindan leikmann A-landsliðs karla. Nefndi Klara jafnframt að hún gæti sagt frá nafninu í símtali. Í viðtölum nefndarinnar kom fram að Guðni og Klara hafi síðar sama dag átt samtal um málið í síma þar sem hún greindi honum nánar frá frásögninni.

Aron minntist á málið að fyrra bragði

Guðni Bergsson greinir frá því í viðtali við nefndina að Aron Einar hafi minnst á atvikið að fyrra bragði við hann í símtali í júlímánuði síðastliðnum. Viðurkenndi Aron þá að hafa átt kynferðisleg samskipti við konuna en neitaði því að hafa beitt hana ofbeldi. Segir einnig af vangaveltum um mögulegan sáttafund í málinu. Umrædd tengdamóðir þolandans upplifði að Guðni og Klara væru ráðvillt í málinu. Um þetta segir í skýrslunni:

„Í viðtali Guðna Bergssonar við úttektarnefndina greindi hann frá því að í símtali þeirra í júlímánuði hefði C að fyrra bragði minnst á frásögn Z eftir að fréttir birtust af því að annar leikmaður landsliðsins, F, væri til rannsóknar í Bretlandi. Að sögn Guðna sagði C að hann hefði átt kynferðislegt samneyti við Z ásamt öðrum leikmanni en hafnaði því alfarið að þeir hefðu brotið á henni. Mun C hafa látið svo um mælt við Guðna að lýsingin væri ekki í samræmi við hans upplifun og að hann ætlaði ekki að játa á sig eitthvað sem hann hefði ekki gert. Guðni sagði síðar hafa komið til tals að málsaðilar hittust mögulega þegar Z léði máls á því samkvæmt upplýsingum frá Y en Guðni kveðst ekki hafa talið rétt að KSÍ hefði óumbeðið milligöngu um það né sáttaferli í máli sem þessu. Arnar Þór Viðarsson sagði í viðtali við nefndina að hann hefði fyrst rætt málið við C í ágúst. C hefði þá greint honum frá sinni hlið málsins sem hafi verið önnur en þolanda. Arnar Þór kveðst á þessum tíma hafa haft í hyggju að velja C í liðið enda hafi hann þá ekki vitað annað en að um væri að ræða óstaðfesta frásögn á internetinu. Y segist hafa fengið á tilfinninguna á þessum tíma að Guðni, Klara og Arnar Þór hafi verið búin að ákveða að þau gætu ekki gert neitt í málinu. Greindi Y þá tilteknum samstarfsmönnum innan KSÍ frá þeirri tilfinningu sinni. Af viðtölum úttektarnefndarinnar verður ráðið að vitneskjan um málið hafi borist til nokkurra starfsmanna KSÍ sem Y hafi trúað sérstaklega fyrir málinu og jafnframt að Guðni og Klara hafi verið ráðvillt um hvernig taka ætti á því. Klara greindi nefndinni frá því að málið hefði verið erfitt, ekki síst vegna þess að hún vissi ekki hverjar væntingar þolanda voru til KSÍ um viðbrögð. Þannig hafi þau Guðni t.d. fengið þau skilaboð að þolandinn vildi ekki að C hætti að spila fyrir Ísland. Samkvæmt frásögn Y, tengdamóður Z, er það réttur skilningur á afstöðu tengdadóttur hennar á þessum tíma.“

Í skýrslunni er farið nokkuð rækilega yfir þátt Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttir kynjafræðings sem vakti almenning til vitundar um málið með greinaskrifum. Hún var í beinu sambandi við þolandann. Hanna Björg sakaði KSÍ um þöggunartilburði í ofbeldismálum landsliðsmanna. Er sá ferill nokkuð þekktur eftir umfjöllun fjölmiðla síðsumars og í haust. Eins og komið hefur fram hefur þolandi í málinu kært Aron Einar og Eggert Gunnþór til lögreglu og hafa þeir gefið skýrslu hjá lögreglu. Lögreglusannsókn stendur yfir og alls óvíst er hvenær henni lýkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Þrátt fyrir tap gegn Manchester United í gær segist stjóri Brentford liðið hafa unnið – ,,Við gengum frá þeim“

Þrátt fyrir tap gegn Manchester United í gær segist stjóri Brentford liðið hafa unnið – ,,Við gengum frá þeim“
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Ósáttum Ronaldo var skipt af velli á 71. mínútu við litla hrifningu hans

Sjáðu myndbandið: Ósáttum Ronaldo var skipt af velli á 71. mínútu við litla hrifningu hans
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Enski boltinn: Tottenham sigraði Leicester á dramatískan hátt – Ótrúlegar lokamínútur

Enski boltinn: Tottenham sigraði Leicester á dramatískan hátt – Ótrúlegar lokamínútur
433Sport
Í gær

Messi bræðurnir sem fóru allir mismunandi leið í lífinu – Einn þeirra hefur ítrekað komist í kast við lögin

Messi bræðurnir sem fóru allir mismunandi leið í lífinu – Einn þeirra hefur ítrekað komist í kast við lögin
433Sport
Í gær

Settir í átta ára bann eftir að hafa sungið níðsöngva um Hillsborough slysi

Settir í átta ára bann eftir að hafa sungið níðsöngva um Hillsborough slysi