The Athletic í Bretlandi skrifar ítarlega grein um málefni KSÍ en blaðamaður þeirra var hér á landi um daginn. Greinina rita Stuart James og Stefán Snær. James kom til landsins og tók viðtöl við fjölda fólks um þann storm sem verið hefur í Laugardalnum. Guðni Bergsson og stjórn KSÍ sögðu af sér eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og sakaði Guðna um lygar í fjölmiðlum.
Þórhildur hafði árið 2017 sakað Kolbein Sigþórsson um ofbeldi en skömmu síðar náðist sátt í málinu. Kolbeinn hefur hafnað sök í málinu en játað því að greiða sátt. „Það vekur furðu að stærstur hluti stjórnar KSÍ vissi ekkert um mál Kolbeins Sigþórssonar. Þau vissu um málið þegar Þórhildur Gyða steig fram í fjölmiðlum. Það er talið að málið hafi aldrei ratað á borð stjórnar fyrr en í ágúst,“ er skrifað í The Athletic.
Síðan er fjallað um íslensku konuna sem sakað hefur Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson um nauðgun árið 2010. Konan hefur kært þá fyrir nauðgun sem á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010.
Sagt er frá því að Guðni Bergsson fyrrum formaður KSÍ og stjórnin hafi fengið veður af af því máli í júní. Konan sem sakar mennina tvo um glæpinn birti þá sögu sína á samfélagsmiðlum. „Þetta er hræðileg saga á svo marga vegu og hún fer ekki í burtu á næstunni,“ segir í grein The Athletic.
„Ég get staðfest að við höfum opnað mál sem kom upp árið 2010. Við erum að opna málið, við höfum fengið nýjar upplýsingar. Við þurfum góðar ástæður til að opna mál og við eru með góðar ástæður. Ný gögn hafa komið fram, við höfum tekið viðtöl við fjölda fólks,“ segir Ævar Pálmi Pálmason yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu við The Athletic.
Aron Einar og Eggert Gunnþór hafna sök í málinu. „Aron hafnar því alfarið að hafa beitt nokkra manneskju ofbeldi,“ segir lögmaður hans Einar Oddur Sigurðsson við The Athletic.
„Þegar Aron gaf út yfirlýsingu sína þá voru bara sögusagnir í gangi. Aron hefur aldrei frá árinu 2010 fengið veður af því að rannsókn sé í gangi. Hann hefur aldrei fengið að vita að hann sé sakaður um glæp. Við fréttum bara af því nýlega að málið hefði farið á borð lögreglu árið 2010 en lögreglan taldi enga ástæðu til að fara áfram með málið. Þetta gerðist allt án vitundar Aron, lögreglan tekur ákvörðun um hvort rannsókn fari fram,“ segir Einar Oddur.
Saga íslensku konunnar og ásökun hennar á Aron Einar og Eggert er svo dregin fram hjá The Athletic og er hún rituð í heild. Hana má sjá hér að neðan:
Guðni Bergsson ræðir ekki málið:
Þegar The Athletic hafði samband við Guðna Bergsson vildi hann ekki ræða málið. „Það er hlutlaus nefnd að skoða málið, það var mín tillaga til að byrja með. Það er ekki rétt fyrir mig að tjá mig núna,“ segir Guðni.
Einn heimildarmaður The Athletic segir að ekkert hafi verið að þeim kúltúr sem var í íslenska landsliðinu. Þegar hann skoðaði málið með The Athletic sagði hann að ekkert samhengi væri á milli málanna en játaði því að þetta liti ekki vel út.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir sem stýrir jafnréttishópi KSÍ er til viðtals og segir: „Þetta voru hetjurnar okkar og allir elskuðu þá. Þetta tók þá fjær raunveruleikanum, þeir fengu mikla athygli frá stelpum og konum. Ég held að þeir hafi ekki kunnað að höndla það, þeir hafa misnotað stöðu sína of oft. Þeir hafa talið sig geta gert það sem þeir voru að gera,“ segir Kolbrún.
Aðgerðahópurinn Öfgar ræðir málið við The Athletic. Hafa þær komið að málinu og sent KSÍ sögur af meintum brotum sex landsliðsmanna í fótbolta. „Fólk er mjög reitt við okkur,“ segir Hulda Hrund sem er hluti af hópnum. „Þau tala um að við höfum skemmt fótboltann.“
Tanja Ísfjörð tekur svo til máls. „Við fáum svo mörg skilaboð eins og að við eigum að drepa okkur, og að við vitum ekkert um fótbolta,“ segir Tanja.
Helga Ben tekur svo til máls. „Við höfum aldrei sagt að við vitum eitthvað um fótbolta,“ segir Helga og brosir, fara konurnar að hlæja að þessu samkvæmt grein The Athletic.
Þórhildur Gyða, sem steig fram í ágúst og sagði sögu sína frá 2017, ræðir við The Athletic. Ítarleg umfjöllun um málið hefur verið í íslenskum fjölmiðlum síðustu vikur. „Hann viðurkenndi að minni hans frá þessu kvöldi væri ekki gott. Hann bað mig að segja sér hvað hann hefði gert. Ég sagði honum það, hann tjáði mér að hann ætlaði ekki að neita þessu því hann mundi ekki eftir þessu. Hann baðst afsökunar og viðurkenndi brotið,“ sagði Þórhildur.
Kolbeinn hefur hafnað því að hafa beitt Þórhildi ofbeldi og kveðst hafa látið vita af því frá upphafi. Hann greiddi Þórhildi og vinkonu hennar sitthvora 1,5 milljónina í bætur og þá greiddi hann 3 milljónir til Stígamóta.
Lögmaður Kolbeins ræðir við The Athletic og segir Þórhildi ítrekað hafa áreitt Kolbein. „Kolbeinn vissi að hann hefði misst stjórn á sér eftir að Þórhildur áreitti hann ítrekað. Hann gæti hafa sagt ljót orð við hana og beðið um að hún yrði fjarlægð af staðnum. Hann vissi að hegðun hans var ekki í lagi, þess vegna bað hann Þórhildi afsökunar,“ segir lögmaður Kolbeins.
Siguður G. Guðjónsson lögmaður hefur verið áberandi í málinu og birti meðal annars lögregluskýrslu sem Þórhildur gaf þegar hún lagði fram kæru gegn Kolbeini. „Ég setti þetta fram til að leiðrétta falskar ásakanir á hendur Kolbeini,“ segir Sigurður G. við The Athletic.
„Það kemur engum við frá hverjum ég fékk gögnin. Það eru staðreyndir og sanna að ásakanir á hendur Kolbeini voru rangar. Ég sé ekki eftir því sem ég hef gert eða sagt síðustu tvo mánuði, vegna þeirra árásar sem hefur verið á KSÍ og landslið karla í knattspyrnu,“ segir Sigurður.
Vanda Sigurgeirsdóttir nýr formaður KSÍ segir The Athletic að verið sé að teikna upp samning sem allir leikmenn landsliðsins verða að skrifa undir. Þar munu þeir skrifa undir að fara eftir ákveðnum reglum.
The Athletic segir að lögfræðingar hafi látið KSÍ vita af því að kæra gæti verið lögð fram á sambandið ef leikmaður er settur til hliðar þegar enginn ákæra hefur verið gefin út af lögreglu.