Neymar hlær að gagnrýni þess efnis að hann sé ekki í formi eftir sumarfríið. Þetta hefur verið mikið rætt á samfélagsmiðlum upp á síðkastið.
Neymar tók þátt í Copa America með Brasilíu í sumar en liðið tapaði gegn Argentínu í úrslitaleiknum. Eftir mótið fór Neymar í sumarfrí þar sem hann naut vel. Í fríinu birtust af honum myndir á sundskýlunni einum fata og hafa margar gagnrýnt hann fyrir það og sagt hann vera í slæmu formi og aðrir ganga svo langt að segja hann vera í ofþyngd.
Franskir fjölmiðlar gagnrýndu hann einnig harkalega fyrir þetta í byrjun tímabilsins í Frakklandi. Þá fóru brasilískir fjölmiðlar á flug er hann spilaði með landsliðinu í gær.
Neymar hefur nú svarað þessum gagnrýnisröddum á Instagram og segist vera jafnþungur og venjulega. Hann segist þó vera í treyju í stærðinni Large. Hann ætlar sér að vera í Medium í næsta leik til að sýna fram á þetta. Með færslunni fylgdu hlæjandi emoji-tákn.