Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísir.is, segir að þau kynferðisbrot og ofbeldisbrot sem landsliðsmenn í knattspyrnu hafa verið sakaðir um að undanförnu séu svo alvarleg að þau eigi ekki heima inni á borði KSÍ. Jakob ræddi þessi mál á Bylgjunni í morgun.
„Veit fólk um hvað það er að biðja? … Að KSÍ bregðist við öllu sem teljast óstaðfestar sögusagnir – og ég er þar með ekki að segja að sögusagnirnar séu rangar – en þetta eru sögusagnir – það hefur ekki farið fram rannsókn, þetta eru einhliða sögusagnir. Og þetta grundvallast á þeirri hugmynd að það sé orðið merkingarlaus klisja að hver maður sé saklaus uns sekt sannast. Ég sé það á Twitter, það sé bara púað á menn sem segja þetta.“
Jakob spyr þá hvort fólki vilji að Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðikennari og baráttukona, komi reglulega niður í KSÍ sem nokkurs konar landsliðseinvaldur og hvísli: „Heyrðu, ég held þið ættuð að kippa þessum gæja úr liðinu, ég var að heyra að hann væri ekki í lagi.“
„Og fara bara niður listann. Bíddu, erum við búin að hugsa þetta til enda? Hvernig á þetta að geta orðið?“ spyr Jakob.
Jakob segir að KSÍ hafi gert mörg mistök í viðbrögðum sínum undanfarið en Guðni Bergsson, fráfarandi formaður sambandsins, hafi verið settur í erfiða stöðu þegar hann var spurður í Kastljósviðtali hvort kynferðisbrotamál hafi komið inn á borð KSÍ og hann sagðist ekki kannast við tilkynningar um slíkt.
„Mér finnst að KSÍ og Guðni hafi gert margvísleg mistök í þessu máli. Þeir eru að reyna að vera böddý böddý við þetta fólk á þessum gölnu forsendum. Guðni er þannig maður að hann vill reyna að hafa alla góða,“ segir Jakob og rifjar síðan upp að ósannindi Guðna í Kastljósi hafi leitt til þess að Þórhildur, sem sakaði Kolbein Sigþórsson um ofbeldi gegn sér á skemmtistað, steig fram:
„Þetta verður til þess að stíflan brestur og hún Þórhildur Gyða stígur fram og telur að Guðni hafi beinlínis logið í viðtali við Kastljós, þar sem hann segir að ekkert slíkt mál hafi komið inn á borð KSÍ.“ – Jakob segir að Þórhildur hafi þarna í sjálfu sér alveg haft góða og gilda ástæðu til að rjúfa þögnina. Hins vegar hafi hann ákveðna samúð með afstöðu Guðna sem hafi álitið þetta vera ofbeldismál en ekki kynferðisbrotamál.
Jakob segir að KSÍ hafa komið sér sjálft í þessa stöðu með stanslausu tali um að íþróttamenn eigi að vera fyrirmyndir og móralskir kompásar. „KSÍ hefur boðið upp á þetta sjálft með því að reka mjög sérstaka aganefnd sem hefur verið að sekta menn þegar þeir nýta tjáningarfrelsi sitt, ég tók eftir þessu þegar Guðjón Þórðarson talaði tæpitungulaust í viðtali og var sektaður af KSÍ.“
Ennfremur segir Jakob fráleitt að svokallað klefatal sé sú gróðrarstía kvenfyrirlitningar og kvenhaturs eins og hefur verið látið í veðri vaka í umræðunni undanfarið. Hann hafi sjálfur verið unglingalandsliðsmaður í handbolta og þekki vel til klefamenningarinnar. „Ég kem af fjöllum, hvaða bull er þetta, þetta bull er sett fram af fólki sem hefur aldrei verið í þessum klefa og veit ekkert hvað þar er í gangi.“
Í lok þáttarins var Jakob spurður hvernig leikurinn gegn Rúmenum færi í kvöld og sagði hann að leikurinn myndi tapast 0-4 og gaf í skyn að strákarnir yrðu ekki í standi vegna umræðunnar undanfarið. Var spáin þó sett fram í léttum tóni.