Allt leit út fyrir að Harry Kane, framherji Tottenham, væri á leiðinni til Manchester City í sumar eftir að kappinn mætti seint til æfinga á undirbúningstímabili Spurs.
Framherjinn staðfesti á Twitter í síðustu viku að hann ætlaði að vera áfram hjá Tottenham á tímabilinu. Aðspurður hvort hann teldi að orðrómarnir hefðu eyðilagt orðspor hans hjá Tottenham þvertók Kane fyrir það.
„Nei, ég held ekki. Ég held að enginn í fótboltaheiminum viti nákvæmlega hvað gekk á. Ég var nokkuð rólegur með stöðuna, en samviskan er hrein þegar þú ert í henni og veist um hvað málið snýst,“ sagði hann í viðtali á Talksport.
„Það hefur ýmislegt gengið á á mínum ferli frá því að ég var ungur og til dagsins í dag, það er bara hluti af leiknum. Ég veit að ég var mjög umtalaður en ég var nokkuð rólegur. Ég skildi stöðuna á milli mín og félagsins og þannig verður það að vera.
Fólk sem þekkir mig segir að ég sé atvinnumaður sem hefur helgað lífi sínu fótbolta og ég mun halda því áfram. Ég horfi fram á við. Markmiðið hefur alltaf verið að vinna titla með Tottenham, og það hefur verið markmiðið á hverju ári.“