Ríkisútvarpið í Bretlandi fjallar ítarlega um stöðu mála á Íslandi á forsíðu sinni í dag. „Forsætisráðherra Íslands miður sín yfir kynferðisafbrotahneykslinu í íslenska fótboltanum,“ segir á forsíðu BBC í dag.
Um er að ræða málefni Knattspyrnusambands Íslands sem fjallað hefur verið ítarlega um síðustu daga. Sambandið er sakað um að hylma yfir meint brot leikmanna karlalandsliðsins og taka þátt í að þagga niður mál þar sem játning lá fyrir.
„Það er dapurlegt að fylgjast með þessari atburðarás en um leið segi ég það að mér finnst virðingarvert að stjórnin hefur núna stigið til hliðar. Það gefur öðrum svigrúm til að taka á þessum málum af festu, sem eru meinsemd, og hafa ekki bara verið að koma upp í knattspyrnuhreyfingunni heldur miklu víðar í samfélaginu. Við þurfum að þora að takast á við kynferðislegt og kynbundið ofbeldi,“ sagði Katrín við Fréttablaðið í gær.
„Ég lýsi líka aðdáun minni á þessa þolendur sem hafa stigið fram og sagt sína sögu því þetta snýst um að við erum að reyna að breyta menningu og viðhorfum. Þetta snýst ekki um einstaklinga. Þetta snýst um menningu og viðhorf í samfélaginu. Í knattspyrnuhreyfingunni er þetta sérstaklega mikilvægt því hún snertir næstum því hverja fjölskyldu á Íslandi og það skiptir máli að við séum að breyta viðhorfi þar,“ sagði Katrín einnig.
Fleiri erlendir miðlar hafa fjallað um málið en íslenska landsliðið mætir Rúmeníu í undankeppni HM á morgun hafa þarlendir fjölmiðlar mikinn áhuga á málinu.