„Ef ég þyrfti að velja einn mann í heiminum til að taka vítaspyrnu til að bjarga lífi mínu, þá væri það Gylfi,“ segir Brian McDermott fyrrum þjálfari Reading í ítarlegri grein um Gylfa Þór Sigurðsson leikmann Everton og íslenska landsliðsins.
Brian McDermott var þjálfari Gylfa á hans yngri árum í Reading og var síðan þjálfari hjá aðalliðinu um stund þegar Gylfi var kominn þangað. Eftir erfitt síðasta tímabil hefur Gylfi verið í lykilhlutverki hjá Everton á þessu tímabili, í undanförnum leikjum hefur hann komið að sigurmörkum liðsins með stoðsendingu, þá skoraði hann í fræknum sigri liðsins á Liverpool á dögunum.
Gylfi hefur verið nokkuð umdeildur á meðal stuðningsmanna Everton, sumir elska hann en aðrir þola hann ekki. Gylfi er dýrasti leikmaður í sögu Everton en félagið borgaði 45 milljónir punda til að fá hann sumarið 2017 frá Swansea.
„Þegar illa hefur gengið og það hefur gerst reglulega hjá Everton, þá hefur Gylfi fengið stuðning frá stjórum Everton og frá samherjum sínum sem sjá alla vinnuna sem hann leggur á borðið,“ segir í grein The Athletic.
Vill spila sína stöðu
Besta staða Gylfa á vellinum er sem fremsti miðjumaður en á síðustu leiktíð var hann oftar en ekki að spila sem djúpur miðjumaður, staða sem hann hefur áfram þurft að leysa á þessu tímabili en ekki jafn oft og í fyrra.
„Mér líður betur sem djúpur miðjumaður í dag en þetta er allt öðruvísi. Núna sit ég til baka og reyni að stoppa liðin að sækja hratt á okkur. Þú verður að hugsa öðruvísi, þú ert að byrja sóknir í stað þess að klára þær,“ sagði Gylfi við The Athletic.
„Þegar við vorum með boltann og það var að koma fyrirgjöf þá hugsa ég alltaf um að fara inn í teiginn og reyna að skora. Stundum var það að gerast og Mason Holgate kallaði á mig og sagði mér að vera til baka.“
Gylfi er í dag í sinni uppáhalds stöðu, fyrir aftan framherjann og flestir sjá að þar nýtist hann best.
Frábær eins og pabbi sinn:
McDermott fer yfir hvernig var að vinna með ungum Gylfa þegar hann kom frá Breiðablik til Reading. „Frábær strákur, góður drengur eins og pabbi sinn. Hann er algjör atvinnumaður, hann kom á æfingu og gerði sitt og fór svo heim. Hann var góð fyrirmynd, hann sleppti aldrei neinu. Við þurftum að draga hann af æfingasvæðinu þegar hann var enn að æfa aukaspyrnur þar degi fyrir leik,“ sagði McDermott.
„Hann er í hópi með Ian Harte yfir þá bestu sem ég hef séð framkvæma föst leikatriði. Þeir tveir æfðu og æfðu þessi atriði. Tæknilega er hann frábær, hann getur sett boltann þangað sem hann vill.
McDermott rifjar upp smáskilaboð sem hann fékk frá föður Gylfi þegar hann stýrði Reading. „Ég tók hann af velli í mínum fyrsta leik gegn Bristol City, ég sendi honum skilaboð um þetta í síðustu viku. Þetta var mjög fyndið, pabbi hans sendi á mig „Brian, þú tekur ekki markaskorarann af velli“. Við gerðum jafntefli.“
„Dagurinn sem við seldum Gylfa til Hoffenheim var tilfinningaríkur, við þurftum á peningum að halda. Faðir hans kom inn á hótelið og ég sagði við hann “Ég tók hann aldrei aftur af velli“
„Hann bjó til svo mörg mörk fyrir mig, ég spilaði honum fyrir aftan framherjann og hann var magnaður. Hann er ekki leikmaður sem öskrar, hann fer hljóðlega um og leiðir liðið með góðu fordæmi. Hann er eins og fyrirliði á æfingasvæðinu, hann hugsar mikið.“
„Ég veit ekki hvað Gylfi gerir að ferli loknum en hann er hugsuður og klár drengur. Ég er viss um að hann hefði sterka skoðun á því hvernig liðið sitt ætti að spila.“
Vill ekki athyglina:
Hjörvar Hafliðason er einn af viðmælendum The Athletic um Gylfa. „Hann hefur þessa hörku sem er í honum úr uppeldinu, ég myndi segja að hann hafi fengið Tiger Woods uppeldi,“ segir Hjörvar við The Athletic.
„Bróðir hans var frábær golfari á Íslandi og faðir hans frábær í pílu. Þeir völdu aðra íþrótt fyrir Gylfa en hann elskaði leikinn og vildi setja klukkutímana í vinnuna, frá sex ára aldri. Hann var að alla daga. Hann var alltaf að fara að verða íþróttamaður, faðir hans fór með hann til sérhæfðs sjúkraþjálfara þegar hann var 13 ára til að vinna í stöðugleika í hnénu. Þeir voru að byggja upp þennan frábæra fótboltamann.“
Hjörvar segir að Gylfi sé mjög hlédrægur maður. „Fyrir utan leikinn er hann mikill atvinnumaður og mjög hlédrægur, hann sést aldrei á næturklúbbum. Ef þú biður fólk um sögur af Gylfa, þá á enginn neina slíka. Hann blandar sér ekki í pólitík, svona er hann bara.“
Gylfi á von á sínu fyrsta barni með Alexöndru Helgu Ívarssdóttir, í grein The Athletic er fjallað um samband þeirra og að þau hafi engan áhuga á athygli fjölmiðla.
Undir lok greinarinnar er það niðurstaða The Athletic að andlegur styrkur Gylfa sé stærsta ástæða þess að hann nær alltaf að skjóta gagnrýnendur sína í kaf með góðum frammistöðu innan vallar.