Ísak Bergmann Jóhannesson leikmaður Norrköping í Svíþjóð hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með liðinu. Ísak, sem er aðeins 17 ára, hefur leikið með Norrköping frá 15 ára aldri.
Ísak hefur vakið athygli stærri liða í Hollandi en í gær var fjallað um að Feyenoord þar í landi vildi Ísak. Sagt var að félagið væri tilbúið að greiða 1 milljón evra fyrir hann og að Ísak færi í varalið félagsins.
Á dögunum var rætt um að stórlið Juventus hefði áhuga á því að fá Ísak í sínar raðir. Þessi ungi leikmaður lék sinn fyrsta U21 landsleik á dögunum.
Ein milljón evra telst heldur lágt verð í knattspyrnuheiminum fyrir einn efnilegasta leikmann Norðurlanda. Þrátt fyrir ungan aldur spilar Ísak með aðalliði Norrköping. Hann hefur spilað 13 deildarleiki á tímabilinu og skorað í þeim tvö mörk.
Magnús Agnar Magnússon umboðsmaður kappans endurbirtir fréttina á Twitter og svarar henni á einfaldan hátt. „Fake news,“ skrifar Magnús Agnar.
Fake News https://t.co/gyb1nucK0I
— Magnus Agnar Magnusson (@totalfl) September 25, 2020