Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United hafnar því að Íslandsvinurinn Mason Greenwood hafi brotið agareglur og sé sökum þess ekki í leikmannahópi félagsins sem mætir PSG um helgina. Greenwood var sömuleiðis ekki í hóp gegn Newcastle á laugardag.
Solskjær segir að Greenwood sé meiddur en hann veit þó ekki hversu alvarleg meiðslin eru. „Nei,“ sagði Solskjær á fréttamannafundi í París í gær þegar hann var spurður um hvort Greenwood hafi brotið agareglur.
Greenwood er ekki eini leikmaðurinn sem United mun sakna í kvöld því Harry Maguire er meiddur og Edinson Cavani var ekki í formi til þess að spila.
„Ég er ekki læknir og veit ekki hversu alvarlegt þetta er. Við erum að vona að þetta sé bara smá, við tökum ekki séns með Greenwood.“
„Vonandi verður hann bara klár um helgina þegar við mætum Chelsea.“
Greenwood komst í heimsfréttirnar í september þegar hann heimsótti Reykjavík og braut sóttvarnarreglur með Phil Foden, þegar íslenskar stúlkur heimsóttu hótel enska landsliðsins. Þeir voru reknir úr landsliðinu vegna þess og hefur Greenwood ekki fundið taktinn eftir það.