Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið grænt ljós á það að íþróttafélög hefji æfingar að fullum krafti.
Í rúma viku hafa lið á Englandi getað æft í litlum hópum en nú er leyfilegt að setja allt á fullt. Leikmenn þurfa ekki lengur að virða tveggja metra regluna.
Enska úrvalsdeildin mun funda um málið á morgun og ræða við fyrirliða félaganna um að hefja æfingar að fullum krafti. Á miðvikudag munu svo félögin kjósa um hvort það verði gert eftir samtöl við leikmenn.
Ef grænt ljós kemur á það er ljóst að enska úrvalsdeildin er skrefi nær því að fara af stað.
Vonir standa til um að deildin fari af stað 12 eða 19 júní en átta aðilar hafa greinst með veiruna í deildinni.