fbpx
Sunnudagur 25.október 2020
433Sport

Nærmynd af Kolbeini Sigþórssyni: Barnastjarna sem upplifði sig sem skrímsli

Hörður Snævar Jónsson
Mánudaginn 27. apríl 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er óhætt að segja að Kolbeinn Sigþórsson, hafi verið barnastjarna. Átta ára gamall var Kolbeinn farinn að birtast í íslenskum dagblöðum. Síðan þá hefur hann verið í sviðsljósinu. Í þessari nærmynd köfum við ofan í það sem Kolbeinn hefur gert á mögnuðum ferli sínum og þá helst þá sögu sem færri muna eftir.

,,Þetta eru mínar bestu minningar, Shell-mótið og Essó-mótið og öll þessi fótboltamót. Þetta eru minningar sem maður gleymir aldrei. Þegar maður lítur til baka þá er geðveikt að hafa upplifað svona góða æsku þar sem maður var í sviðsljósinu. Það er gaman að því og það hefur alltaf verið auka pressa á mér,“ sagði Kolbeinn við okkur á síðasta ári.

Úr Morgunblaðinu 1998

8 ára gamall Kolbeinn var reglulega á forsíðum íþóttablaða, fólk sá að þarna var ungur drengur með einstaka hæfileika. ,, Víkingur og Fram komust bæði taplaus í gegn um riðlakeppnina og liðin mættust í úrslitaleiknum. Bæði liðin sýndu oft á tíðum falleg tdlþrif en Víkingar virtust þó heldur ákveðnara
liðið frá byrjun. Kolbeinn Sigþórsson skoraði bæði mörk Víkinga, og leikskilningur og samspil drengjanna ætti að vera mörgum eldri liðanna fyrirmynd,“ segir í Morgunblaðinu árið 1998 þegar 6 flokkur Víkings varð Íslandsmeistari. Kolbeinn skoraði 14 mörk í úrslitakeppninni.

Ári síðar var Kolbeinn aftur hetja Víkings, liðið varð aftur Íslandsmeistari og Kolbeinn var allt í öllu. ,,í úrslitaleik A-liða mættust Vikingur og Breiðablik og má segja að Kolbeinn Sigþórsson hafi klárað þann leik á fyrstu tveimur mínútum úrslitaleiksins sem Víkingar unnu, 4-2. Kolbeinn skoraði strax eftir 15 sekúndur, bætti við öðru marki við á 1. mínútunni og áður en önnur mínúta leiksins var liðin hafði hann gert þrennu. Blikar minnkuðu muninn með tveimur mörkum þeirra Kristins Rúnars Kristinssonar og Jóhanns Berg Guðmundssonar en áður en flautað var til leiksloka innsiglaði Kolbeinn sigur Víkinga með sínu fjórða marki beint úr aukaspyrnu. Kolbeinn skoraði bæði mörk Víkinga í úrslitaleiknum i fyrra, hann á enn eitt ár eftir í þessum flokki og getur því hugsanlega endurtekið leikinn í þriðja sinn á næsta ári,“ segir í frétt DV árið 1999.

Bestur í Eyjum:

Árið 2000, þá tíu ára gamall var Kolbeinn hetja í Vestmannaeyjum. Jafnaldrar hans litu á hann sem stjörnu þegar Víkingur vann Shell-mótið í Vestmannaeyjum. ,,Kolbeinn Sigþórsson, bróðir Andra Sigþórssonar í KR, var í gær valinn besti leikmaður Shellmótsins árið 2000. Kolbeinn er vel að titlinum kominn enda var hann einnig markahæstur í mótinu og var fyrirliði Víkinga sem unnu gullverðlaun A-liða,“ segir í frétt DV frá árinu 2000.

„Mér leið bara mjög vel. Ég varð bara mjög ánægður með þetta,“ sagði tíu ára gamall Kolbeinn við DV:

Nú á Andri bróðir þinn markametið á mótinu, sett 1987, ætlaðir þú að slá metið? „Ég veit það ekki. Ég ætlaði bara að verða markahæstur í ár og halda markakóngstitlinum.“

Er enginn rígur milli ykkar bræðranna um hvor sé meiri markaskorari?
„Nei, nei, ekkert svo. Hann veit að ég er betri.“

Hetjan á Akureyri:

Árið 2001 var Kolbeinn mættur með Vikingum á Essó-mótið á Akureyri, á yngra ári en var kjörinn besti sóknarmaður mótsins. Víkingur vann mótið í flokki A-liða. ,, í liði þeirra var einnig Kolbeinn Sigþórsson, bróðir landsliðsmannsins Andra Sigþórssonar sem var einmitt valinn besti sóknarmaður í A-liðum,“ segir í frétt DV frá 2001.


Foreldrarnir fengu endalausar fyrirspurnir:

13 ára gamall var Kolbeinn farinn að vekja athygli stórliða út í heimi. Morgunblaðið fjallaði meðal annars um málið. ,,Kolbeinn Sigþórsson, 13 ára gamall leikmaður Víkings í knattspyrnu, heillaði forráðamenn enska stórliðsins Arsenal á dögunum en félagið bauð Kolbeini út til æfinga og dvaldi hann í nokkra daga hjá.“

„Menn frá félaginu hafa fylgst lengi með Kolbeini. Þeirra hlutverk er að leita eftir efnilegum leikmönnum út um allan heim og við fengum boð frá þeim að koma út. Félögin eru farin að leita eftir yngri mönnum og þó þau geti ekki gert samninga við þá fyrr en þeir eru orðnir eitthvað í kringum 16 ára aldurinn þá eru þau að leita að framtíðarmönnum,“ sagði Sigþór, faðir Kolbeins, við Morgunblaðið.

„Kolbeinn fer aftur til Arsenal enda vill liðið fá hann aftur eins fljótt og hægt er og það vill líka fá hann í keppnisferð með drengjaliðinu í sumar. Það er því full alvara á bak við þetta enda væri liðið ekki að bjóða drengnum út nema svo væri. Þjálfararnir voru virkilega ánægðir með það sem þeir sáu til Kolbeins og strákurinn er að vonum mjög spenntur. Hver væri það ekki þegar svona stórt lið er að fylgjast með manni? Arsenal hefur spurt um Kolbein á hverju ári en það kom ekki til greina af hálfu okkar foreldranna að hann færi út fyrr en nú,“ sagði Sigþór.

Ári síðar fór Kolbeinn aftur til Arsenal og skoraði þá á hinum sögufræga Highbury velli.

GÆTI ORÐIÐ HINN ÍSLENSKI: WAYNE ROONEY

Þegar Kolbeinn var 15 ára gamall, sá DV í hvað stefndi og líkti honum við Wayne Rooney. ,,Leikmaður sem getur náð mjög langt ef allt gengur upp. Hefur verið yfirburðamaður í öllum yngri flokkunum þrátt fyrir að spila jafnan ári upp fyrir sig og var meðal annars markahæsti leikmaður Shell-mótsins í Vestmannaeyjum þrjú ár í röð. Er bróðir Andra Sigþórssonar, fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu, og því ljóst að markaskorunargenið er til staðar. Allir grunnþættir eru fyrsta flokks – móttaka, snerting, skot, sending og skallatækni. Er einn af þessum örfáu sem virðist fæðast með óútskýranlega fótboltahæfileika. Er markaskorari af guðs náð, klárar færin sín einstaklega vel en vill koma töluvert til baka og sækja boltann,“ sagði í frétt DV 2005.

Félagaskipti sem vöktu mikla athygli:

Það vakti athygli þegar Kolbeinn fékk félagaskipti yfir í HK árið 2006, hann útskýrði ástæðuna í viðtali við okkar á dögunum. „Mér fannst ég vera farinn að staðna í Víkingi og fannst ég þurfa nýja áskorun. Það var ástæðan fyrir því að ég færði mig um set,“ sagði Kolbeinn sem lék nokkra leiki með HK í 1. deildinni.

Zeljko Óskar Sankovic var þjálfari hjá HK og hann vann mikið með Kolbeinn. „Ég fann ekki mikið fyrir því að það hafi verið einhver læti í kringum þessi skipti mín. En það hefur eflaust verið einhver læti. Ég held að þetta hafi verið rétt skref. Mér fannst eins og það væri ekkert meira til að vinna í Víking. Ég þekkti Zeljko eftir að hafa verið hjá honum á séræfingum. Hann kom mér í þvílíkt form. Hann tók mig gjörsamlega í gegn og tók þolið, sprengikraftinn, tæknina og allt sem maður þarf til að vera í toppformi og hann sá um þetta. Ég var hjá honum tvisvar sinnum á dag nokkra daga vikunnar í sérprógrammi.“

Árið 2006 var ljóst að Kolbeinn væri á leið í atvinnumennsku. Arsenal, Barcelona, Real Madrid, West
Ham, Ajax, AZ Alkmaar, Reading og Blackburn höfðu mikinn áhuga. Hann æfði með mörgum liðum og síminn stoppaði ekki. „Það virðast allir vera að spá og spekúlera. Ég get þó sagt að það er fótur fyrir flestum sögusögnunum. Það er gríðarlega mikið álag á símanum,“ sagði faðir Kolbeins við Fréttablaðið árið 2006.

Hann gekk á endanum í raðir AZ Alkmaar í Hollandi, ekki stærsta skrefið sem var í boði en líklega það skynsamlegasta. „Ég ákvað að velja AZ á endanum því mér líst vel á félagið og tel að hollenska úrvalsdeildin sé góður staður til að byrja á,“ sagði Kolbeinn við Fréttablaðið.

Sögu Kolbeins frá 2007 þekkja flestir, hann hefur verið einn besti leikmaður íslenska landsliðsins á mesta blómaskeiði liðsins. Hann skoraði mark í frægum leik gegn Englandi á Evrópumótinu árið 2016. Hann er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.

Ferill Kolbeins hjá félagsliðum hefur verið erfiðari, hann átti frábært fyrsta ár í aðalliði AZ Alkmaar árið 2010 og var keyptur til hollenska stórliðsins AZ Alkmaar ári síðar. Hjá Ajax gekk Kolbeini vel en meiðsli settu stórt strik í reikning hans. Hann stóð sig hins vegar með ágætum og varð hollenskur meistari í þrígang.

Eftir fjögur ár í Hollandi gekk Kolbeinn í raðir Nantes í Frakklandi árið 2015, þar fann framherjinn sig aldrei. Hann var lánaður til Galatsaray en gat aldrei spilað þar sökum meiðsla.

Undir það síðasta í Frakklandi var Kolbeinn teiknaður upp sem skrímsli af forseta Nantes. ,,Ég vil helst tala sem minnst um þenn­an tíma. Þegar maður lít­ur til baka var þetta ekki góður tími og eitt­hvað sem maður hefði viljað breyta, eða fara þá í annað lið,“ sagði Kol­beinn í ítarlegu viðtalið við okkur á síðasta ári.

Í mars árið 2019 komust Kolbeinn og Nantes að samkomulagi um að rifta samningi hans. „Ég skil ekki ástæðuna fyr­ir því að þetta varð svona. Og það var eng­in ástæða. Mér fannst ég orðinn eitt­hvað skrímsli þarna á tíma­bili. En hann talaði bara í fjöl­miðlum en aldrei við mig, svo ég svaraði sann­leik­an­um til baka. Það kannski pirraði hann, en auðvitað átti hann að koma til mín ef hann var ósátt­ur við mig. Það hefði ég viljað, en hann gerði það ekki og það voru ekki eðli­leg sam­skipti eft­ir það,“ sagði Kol­beinn.

Kolbeinn er í dag hjá AIK í Svíþjóð, á þrítugsaldri og gæti átt mörg ár eftir í boltanum. Hans fyrsta ár í Svíþjóð var gott, hann var minna meiddur en áður og snéri aftur í íslenska landsliðið. Eftir erfið ár í Frakklandi er bjartara yfir öllu hjá þessari fyrrum barnastjörnu, sem lengi hefur verið í sviðsljósinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Liverpool kom til baka gegn Sheffield United

Liverpool kom til baka gegn Sheffield United
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Andri Fannar kom við sögu í tapi gegn Lazio

Andri Fannar kom við sögu í tapi gegn Lazio
433Sport
Í gær

Böðvar spilaði allan leikinn í tapi

Böðvar spilaði allan leikinn í tapi
433Sport
Í gær

Segir Mourinho hafa brotið sjálfstraustið sitt – „Af hverju gerir hann þetta við fólk?“

Segir Mourinho hafa brotið sjálfstraustið sitt – „Af hverju gerir hann þetta við fólk?“
433Sport
Í gær

Þrenna Bamford tryggði Leeds sigur

Þrenna Bamford tryggði Leeds sigur
433Sport
Í gær

Frásögnin um gróft einelti í Garðabæ hreyfði við Jóni Daða: „Þeir sem lögðu mig í einelti eru ekkert merkilegir í dag“

Frásögnin um gróft einelti í Garðabæ hreyfði við Jóni Daða: „Þeir sem lögðu mig í einelti eru ekkert merkilegir í dag“