fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
FréttirLeiðari

Traustsins verður

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 28. júní 2016 07:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýafstöðnum forsetakosningum höfðu kjósendur ekki áhuga á að ræða Icesave eða þorskastríðið, efni sem komu þó sífellt til tals í kosningabaráttunni. Of mikill tími fór í þras um fortíðina meðan ljóst var að langflestir frambjóðendur vildu horfa til framtíðar. Of oft gerðist það að frambjóðendum var stillt upp eins og væru þeir á sakamannabekk og þeir látnir svara fyrir gömul orð, sem allflestum var ljóst að höfðu verið sárasaklaus og gáfu ekki tilefni til stórfelldrar umfjöllunar. Spurningar fjölmiðlafólks voru í of mörgum tilfellum með neikvæðum formerkjum og frambjóðendur lentu iðulega í því að þurfa að bera af sér sakir. Einn hafði skrifað ógætileg orð á Facebook fyrir einhverjum árum, annar notað myndlíkingu sem hann þurfti að útskýra hvað eftir annað, enn annar verið fundarstjóri í útrásarboði og þar sem einn frambjóðandi er einn áhrifamesti stjórnmálamaður 20. aldar hér á landi var hann stöðugt spurður um verk sín og gjörðir á þeim tíma. Of mikið var staglast á þessum hlutum í umræðuþáttum og þjóðin þurfti óþarflega oft að hlusta á frambjóðendur útskýra sama hlutinn aftur og aftur. Það var eiginlega meira rætt um fortíð en framtíð í þessari kosningabaráttu, þrátt fyrir að þeir frambjóðendur sem bestum árangri náðu reyndu stöðugt að setja framtíð Íslands og hlutverk forsetans á dagskrá.

Guðna Th. Jóhannessyni er óskað til hamingju með góða og afgerandi kosningu. Það var aldrei raunhæft að hann fengi jafn mikið yfirburðafylgi og kannanir gáfu til kynna en stuðningurinn var mikill og hann var efstur í öllum kjördæmum. Frambjóðandinn sem næst honum kom háði vel skipulagða kosningabaráttu og stóð sig vel í kappræðum og hlaut að uppskera eftir því. Oft var illa vegið að Guðna í kosningabaráttunni en hann glataði ekki prúðmennsku sinni og hélt ró sinni. Hann mun verða góður forseti allrar þjóðarinnar, mun sameina en ekki sundra. Eins og núverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson hefur bent á þá er líka styrkur fyrir hann að búa yfir meiri þekkingu á forsetaembættinu en flestir aðrir. Guðni er traustsins verður.

Það er list að kunna að vinna og Guðni tók sigrinum af þeirri hógværð sem einkennir hann. Það er líka list að kunna að tapa og meðframbjóðendur hans sýndu að þeir kunna það. Engum tókst þó betur upp en Davíð Oddssyni sem hafði rekið grimma kosningabaráttu sem beindist mjög gegn Guðna. Davíð tók ósigri sínum af yfirvegun og húmor og þó nokkurri reisn. Þar sýndi hann á sér hlið sem margir þekkja en sáu ekki oft í kosningabaráttunni. Hann hefði örugglega náð betri árangri í baráttu sinni hefði hann allan tímann sýnt á sér þessa hlið.

Skoðanakannanir hafa sýnt að Íslendingar láta sér annt um forsetaembættið og vilja halda í það. Kjörsóknin í forsetakosningunum sýndi að það skiptir þjóðina máli hver gegnir embættinu. Henni hefur alltaf tekist að velja í embættið einstakling sem hefur staðið sig með prýði. Hið nýja val er örugglega engin undantekning frá því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar