Bandaríska geimferðastofnunin NASA fylgist vel með sólkerfinu og því sem þar er á ferðinni og þar á meðal loftsteinum. NASA er með sérstakt eftirlit með loftsteinum og halastjörnum og flokkar eftir hvort einhverjar líkur séu á að til árekstrar komi við jörðina.
Near-Earth Object Wide-field Infrared Survey Explorer (NEOWISE) gervihnötturinn er á braut um jörðina til að finna loftsteina og halastjörnur. Hann hefur nú fundið 788 loftsteina sem koma nærri jörðinni og 136 halastjörnur. Af þessum hafa 10 verið settir í flokk sem „hugsanlega hættulegir“ sem þýðir einfaldlega að jörðinni getur stafað ógn af þeim.
NEOWISE hefur í heildina fundið 29.375 loftsteina og halastjörnur á fjórum árum en það er aðeins lítill hluti þeirra sem kemur nærri jörðinni.
Hjá NASA telja vísindamenn ekki miklar líkur á að loftsteinn eða halastjarna muni gera út af við okkur á næstu árum. Mestu líkurnar eru á að lofsteinn, sem er nefndur Bennu, lendi í árekstri við jörðina einhvern tímann frá 2175 til 2199 en líkurnar á því eru taldar 1 á móti 24.000.
En síðan getur það auðvitað gerst að lofsteinn birtist algjörlega að óvörum og lendi í árekstri við heimkynni okkar. Fyrr í mánuðinum fór stór loftsteinn, um 100 metrar í þvermál, mjög nærri jörðinni. Vísindamenn sáu ekki til ferða hans fyrr en nokkrum klukkustundum áður. Hann var svo nærri að hann fór á milli jarðarinnar og tunglsins.